138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það hafi tekist vel til í þessum efnum, bæði frá hagsmunum ríkisins og eins varðandi mögulegt framtíðarlandslag hér í bankaheiminum. Ég held að það sé góð niðurstaða að ríkið verði yfirgnæfandi eigandi, og kannski eini eigandinn innan fárra ára, að stærsta banka landsins. Það myndar góða kjölfestu og hefði betur aldrei verið farið út á þá ógæfubraut að selja alla bankana í einu lagi eins og gert var, eða þessa tvo sem voru einkavæddir. Ég hef mikið hugsað um það síðan t.d. ef farið hefði verið að okkar ráðum og menn hefðu látið sér nægja kannski að einkavæða annan ríkisviðskiptabankann árið 2002, hefðu haldið Landsbankanum eftir. Hann hefði sennilega aldrei farið í Icesave-leiðangurinn og væri kannski bara starfandi í dag sem býsna sterkur innlendur kjölfestuaðili í fjármálaheiminum ef hann hefði staðið í lappirnar og ekki farið út í ruglið með hinum, eins og örfáar innlendar fjármálastofnanir gerðu og standa núna vel. Er heiður og sómi að því að t.d. Sparisjóður Suður-Þingeyinga og Sparisjóður Strandamanna á Hólmavík skuli vera þær fyrirmyndarstofnanir sem þær eru. Betur að fleiri hefðu haft kjark til þess að fylgja brjóstviti þeirra sem þar réðu ferðinni og taka ekki þátt í ruglinu. (Gripið fram í.) Kröfuhafarnir geta að sjálfsögðu verið mismunandi en þeir eru á bak við, þeir eru kröfuhafar í búið og bankinn er í eigu eignarhaldsfélags sem heldur um þessa tilteknu eign búsins í einu lagi, kröfuhafarnir komast þar hvergi að, hvergi nálægt. Þeir eru kröfuhafar í búið þegar til uppgjörs kemur og ráðstöfunar á eignum og verðmætum búsins. En þeir hafa enga aðkomu að þeirri tilteknu eign sem búið er um stjórnunarlega og samkvæmt lögum mjög kirfilega og allt uppáskrifað af Fjármálaeftirlitinu. Ég tel því að menn þurfi ekki að hafa slíkar áhyggjur af þessu.

Hvað framtíðin ber í skauti sínu, já, það skiptir máli, en væri það vondur kostur ef stór norður-evrópskur banki eignaðist einn af viðskiptabönkunum hér? Væri það svo slæmt ef það yrði nú niðurstaðan? (Gripið fram í: Það fer eftir eigendunum.) Ja, kom það ekki í ljós að Íslendingar reyndust nú engir sérstakir snillingar í alþjóðlegum bankarekstri? (Gripið fram í.) Kannski ættum við að hætta að tala af þessum hroka um þetta (Forseti hringir.) og viðurkenna það að við getum haft gagn af því og lært ýmislegt af því að eiga í samstarfi við fagmenn á þessu sviði.