138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

tekjuskattur.

506. mál
[15:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Þetta snýr að því að sett verði í lögin ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér heimild til manna til að draga tiltekna fjárhæð sem greidd er fyrir vinnu við endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota og frístundahúsnæði frá tekjuskattsstofni að ákveðnu hámarki á grundvelli framlagðra reikninga. Heimild þessi mun koma til frádráttar tekjuskattsstofni við álagningu opinberra gjalda á árunum 2011 og 2012 vegna tekjuáranna 2010 og 2011.

Gert er ráð fyrir því að frádrátturinn geti aldrei orðið hærri en 50% af því sem greitt er fyrir vinnu við þær framkvæmdir sem frumvarpið tekur til á árunum 2010 og 2011 og að hámarki 200.000 kr. hjá einhleypingi eða 300.000 kr. hjá hjónum eða sambúðarfólki.

Með endurbótum og viðhaldi er m.a. átt við vinnu iðnaðarmanna, verkfræðinga og arkitekta, hvort heldur sem er á íbúðarhúsnæðinu sjálfu eða lóð þess. Markmiðið með slíku ákvæði til bráðabirgða er að koma til móts við eigendur fasteigna sem þarfnast viðhalds en halda að sér höndum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga, sporna við svartri atvinnustarfsemi og hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði, en fjölmennasti hópur á atvinnuleysisskrá eru þeir sem áður störfuðu við mannvirkjagerð. Frádráttarheimild hvetur til framkvæmda en það er mikilvægt þegar atvinnuástand er sem nú og horfur eru á því á næstunni, m.a. í byggingargeiranum. Auk þess er almennt litið svo á að slík tímabundin heimild sé líkleg til að stuðla að minni undanskotum frá skatti og muni þar með minnka svarta atvinnustarfsemi. Að sama skapi getur frádráttarheimildin dregið úr greiðslum vegna atvinnuleysisbóta vegna aukinna framkvæmda og umsvifa.

Áætlað er að það ástand sem skapast hefur á vinnumarkaði í kjölfar bankahrunsins sé tímabundið og að þjóðin vinni sig út úr vandanum á næstu árum og verður þá ekki lengur þörf á tímabundinni ráðstöfun sem þessari og reyndar fleirum sem gripið hefur verið til af skyldum toga.

Sú fjárhæð sem kemur til frádráttar frá tekjuskattstofni tekur mið af kostnaði við vinnu án virðisaukaskatts en þann skatt er nú heimilt að endurgreiða að fullu samkvæmt ákvæðum til laga um virðisaukaskatt og lækkar það kostnaðinn um 20%. Frádráttur samkvæmt þessari heimild mun þá leiða til ívilnunar upp að þeim fjárhæðarmörkum sem um getur, sem numið getur u.þ.b. 16% til viðbótar.

Áhrif þessa frádráttar á tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga geta orðið nokkur. Heildaráhrifin ráðast af aukningu á umfangi viðhaldsframkvæmda og af því hvernig þær verða fjármagnaðar. Tilfærsla frá öðrum neysluliðum dregur úr jákvæðum áhrifum en sé aukið viðhald fjármagnað með því að gengið er á sparifé eða með lántöku verða áhrifin meiri. Ætla verður að tímabinding frádráttarheimildarinnar muni stuðla að slíkri fjármögnun fremur en hitt.

Áætlað er að viðhaldskostnaður íslenskra heimila sem þau greiða sjálf hafi numið um 27 milljörðum kr. árið 2008. Af þessum kostnaði er launakostnaður áætlaður um 25%, sem er nokkuð hærra hlutfall en launakostnaður er almennt í byggingarkostnaði. Viðhaldskostnaður í fjölbýlishúsum er venjulegast greiddur af húsfélögum og er ekki sérgreindur sem viðhald hjá heimilunum. Því til viðbótar er vinna við stækkun eða aðrar meiri háttar viðgerðir á íbúðarhúsnæði eða sumarhúsum skilgreind sem fjárfesting og ekki talin með viðhaldsliðum. Ef gengið er út frá viðhaldskostnaðinum eins og að ofan greinir og 25% hans talin vinnulaun ættu þessi umsvif að leiða til um 800 millj. kr. endurgreiðslu virðisaukaskatts miðað við þær reglur sem giltu árið 2008, en þá nam endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað nam 60%. Niðurgreiðslan það ár nam hins vegar um 1 milljarði króna sem er í samræmi við ofangreindar forsendur.

Áhrif frumvarpsins til lækkunar á tekjum sveitarfélaga verða væntanlega nokkru minni en áhrifin á tekjur ríkissjóðs. Hlutdeild þeirra í tekjusköttum á laun yfir skattleysismörkum eru um eða undir þriðjungi. Tekjutap þeirra, verði engar magnbreytingar, gæti því að hámarki numið um 300 millj. kr. Aukin umsvif munu einnig bæta tekjur sveitarfélaga þar sem þau fá einnig tekjur af auknum vinnulaunum.

Um fimmti hver einstaklingur sem skráður er atvinnulaus kemur úr byggingarstarfsemi, eða um 3.000 manns, en þeim hefur fjölgað eftir því sem liðið hefur á veturinn. Þessi aðgerð er tilraun til að auka umsvif í byggingarstarfsemi með því að hvetja til þess að ráðist verði í viðhaldsverkefni í meira mæli en annars hefði orðið. Engin þörf er á nýjum íbúðum eða atvinnuhúsnæði víðast hvar um landið og því er ekki mögulegt eða æskilegt að auka nýbyggingar um sinn, en víða er mikil viðhaldsþörf.

Rétt er að leggja áherslu á að þessu bráðabirgðaákvæði er einungis ætlað að vera í gildi meðan atvinnuástand í byggingariðnaði er jafnslæmt og nú er. Því er mikilvægt að einstaklingar og húsfélög grípi þetta tækifæri strax og ráðist í framkvæmdir í ár og á næsta ári. Það er vonandi að atvinnuástandið í byggingargeiranum batni það mikið að slíkar bráðabirgðaráðstafanir verði ekki þarfar nema í skamman tíma.

Það er mikilvægt sömuleiðis, frú forseti, að þessar aðgerðir og þessi tilboð, ef við getum kallað það svo, til þeirra sem eiga húsnæði sem þarfnast viðhalds verði rækilega kynntar. Við áttum á síðastliðnum vetri ágætt samstarf við Samtök iðnaðarins um að kynna breytingu sem þá var ráðist í, að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts úr 60 í 100%. Sú aðgerð heppnaðist mjög vel og leiddi sannarlega til verulega aukinna umsvifa á byggingarmarkaði eða í viðhaldsstarfsemi umfram það sem ella hefði mátt búast við. Það tókst í raun með þeirri aðgerð að ná umfangi þeirrar starfsemi nokkurn veginn upp í það sem hún var fyrir efnahagshrunið og hlýtur það að kallast nokkuð gott miðað við okkar aðstæður.

Það er sömuleiðis alveg ljóst að þetta er mjög jákvæður liður í því að fá þessa starfsemi alla upp á yfirborðið og að draga úr hættunni á svartri vinnu. Það á því að mega gera sér góðar vonir um að margt vinnist í senn með aðgerð af þessu tagi og þó að vissulega geti þarna orðið eins og í fyrstu umferð sýnist um nokkurt tekjutap ríkis og lítils háttar tekjutap sveitarfélaga að ræða, eru allar ástæður til að ætla að það fáist til baka og rúmlega það í formi minni atvinnuleysisbóta, í formi aukinna umsvifa og þar með launatekna sem koma fram og taldar verða fram til skatts og með fleiri samfélagslega jákvæðum hætti.

Ég tel, frú forseti, að þessar ráðstafanir séu réttlætanlegar og vel ígrundaðar, þó að það sé vissulega ekki erindi mitt hér í ræðustólinn á hverjum degi að leggja til eitthvað sem dregur úr tekjum ríkisins um þessar mundir.