138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

tekjuskattur.

506. mál
[15:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er verið að tala um það að til viðbótar við það að menn fái endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu sem unnin er á vinnustað á stuttum tíma, 2010 og 2011, verði heimilt að draga auk þess frá 50% af greiddri vinnu samkvæmt framangreindu. Þetta er í sjálfu sér jákvætt. Ég get tekið undir flest sem hæstv. ráðherra sagði nema kannski það að engin þörf sé fyrir nýbyggingar. Það er nefnilega komið þannig núna að það hefur engin eftirspurn verið eftir fasteignum í tvö, þrjú ár og það eru tveir, þrír árgangar Íslendinga sem ekki hafa keypt sína fyrstu íbúð. Ég hygg því að það sé töluvert mikil eftirspurn bæði eftir leiguhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Vandinn er sá að tortryggnin er svo mikil hjá bönkum og öðrum og þeim sem kaupa að þeir treysta því ekki að geta lánað til slíkra bygginga eða til að klára þær og annað slíkt. Ég er því ekki viss um að þetta sé alveg rétt en það má liggja milli hluta.

Það sem ég hef út á þetta að setja, og ég hef vissulega út á þetta að setja, er flækjustigið. Það er búið að flækja skattkerfið alveg óhemju mikið. Við gerðum það fyrir áramót, þ.e. ég greiddi atkvæði gegn því en ríkisstjórnin gerði það, hún flækti allt skattkerfið þvílíkt að menn þurfa að vera lögfræðingar núna til að stunda venjulega atvinnu. Það er bara eins og með sjómennskuna, menn þurfa að vera lögfræðingar þar líka. En það er mjög gömul saga. Núna þurfa menn að vera lögfræðingar til að vera iðnaðarmenn og til að vera húsbyggjendur til að fara út í svona aðgerðir, þeir þurfa að þekkja þessa möguleika. Flækjustigið verður þannig að ríkisstjórnin þarf alltaf að upplýsa meira og meira og spurning hvort hún geri það. Og til að ná fram þessum tekjum þurfa menn að fara í framkvæmdir og annað slíkt. Ég vara mjög mikið við slíku flækjustigi í þjóðfélaginu sem gerir það að verkum að það er einstaka maður sem sér smugurnar og það sem verið er að gera en ekki nógu margir. Sérstaklega þeir sem eru vankunnandi og þekkja ekki inn á kerfið, ólæsir og annað slíkt og ekki menntaðir, þeir sitja eftir, því miður. Þannig er það oft.

Svo er annar þáttur í þessu líka — ég ætla ekki að vera langorður, ég ætlaði ekki að tefja málið — og hann er sá að raunvextir eru neikvæðir í dag nema á verðtryggðum inneignum. Raunvextir af innlánum í bönkunum eru neikvæðir og það er búið að stórauka skatta á þessar neikvæðu fjármagnstekjur, þ.e. það er verið að skattleggja tapið, það er verið að skattleggja tapið í auknum mæli á innlánum. Ég heyri mjög marga innlánseigendur sem eru uggandi, auk þess að treysta ekki bönkunum fyrir eigninni, og vilja fara út í svona framkvæmdir. Það getur því vel verið að það muni líka hvetja menn til að eyða peningunum strax, að vera ekki að eiga þá, og setja þá heldur í svona framkvæmdir og viðhald, því að það er þá eitthvað sem verður ekki af þeim tekið þegar búið er að gera t.d. við þakið. Það er líka ákveðinn þáttur í þessu. Ég er ekki hrifinn af honum, af því ég vil hvetja þjóðina til sparnaðar og ráðdeildarsemi og þess að stunda ekki áhættuviðskipti, en það er ljóst að öll lántaka er áhætta og innlán í banka er minnkun á áhættu.

Ég mun veita þessu frumvarpi brautargengi þó að ég bendi á þessa vankanta sem eru flækjustigið o.s.frv.