138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

tekjuskattur.

506. mál
[15:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ekki þarf að hafa áhyggjur hér af auknu flækjustigi í skattinum, því að þetta er nákvæmlega sama aðgerðin og felst í því að heimila endurgreiðslu virðisaukaskattsins. Þetta gerist einfaldlega þannig að þeir sem ætla að fá endurgreiddan virðisaukaskattinn vegna viðhaldsframkvæmda leggja fram nótur um vinnulaun, um greidd vinnulaun og þar kemur virðisaukaskatturinn fram sundurliðaður á þeim nótum. Það eru sömu gögn sem liggja til grundvallar tekjuskattslækkuninni eða endurgreiðslunni og það þarf því ekkert viðbótarbókhald, engin viðbótargögn. Þetta er einfaldlega viðbótaraðgerð eða viðbótarívilnun sem leggst með þeirri endurgreiðslu virðisaukaskatts sem verið hefur við lýði um langt árabil og var löngum 60% af launaþættinum í slíkum framkvæmdum þangað til það var hækkað í 100% í fyrravetur. Framkvæmdin er einföld. Þetta er nákvæmlega það sama sem liggur til grundvallar og þegar um endurgreiðslu virðisaukaskattsins sjálfs er að ræða. Það er ekkert viðbótarflækjustig í framkvæmdinni, ekki neitt.

Varðandi það að fólk eigi frekar að spara en að eyða í hluti af þessu tagi. Já, ekki ætla ég að leggjast gegn því að menn spari, greiði niður skuldir og sýni ráðdeild, en það er auðvitað margt fólk sem hefur ráð á því að ráðast í framkvæmdir af þessu tagi. Það er t.d. þannig að það sýna nú kannanir að rétt eins og kannski um 20% af íbúðareigendum eiga í miklum erfiðleikum vegna mikilla skulda, eru kannski önnur 20% sem skulda alls ekki neitt, eiga sitt húsnæði skuldlaust. Þetta fólk, margt hvert, býr í húsnæði sem eitthvað er komið til ára sinna, þarfnast viðhalds, og núna er nákvæmlega rétti tíminn fyrir fólk til að ráðast í viðhald og endurbætur á húsnæði. Það þjónar öllum vel, því sjálfu, það fær endurbæturnar, ríkið leggur sitt af mörkum með hagstæðu skattalegu umhverfi, það þjónar líka því að iðnaðarmenn fá störf og það myndast tekjur og við þurfum minna að borga í atvinnuleysisbætur o.s.frv. o.s.frv. Ég hygg að þetta sé það sem stundum er kallað á vondu máli, staða þar sem báðir eða allir aðilar vinna.