138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

tekjuskattur.

506. mál
[15:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Með flækjustigi átti ég við þekkinguna á því hvað lögin leyfa. Ég hugsa að nokkur hluti þjóðarinnar, ég veit ekki hve stór, það væri kannski gaman fyrir fjármálaráðuneytið að kanna það hve stór hluti þjóðarinnar veit að menn geta dregið virðisaukaskatt frá og fengið hann endurgreiddan. Ég er ekki viss um að það séu 100%. Ég hugsa jafnvel að það séu 70% sem vita það, jafnvel 60%. Hér er gerð enn ein breytingin sem á að hvetja menn til að fara í viðhald. Hvað munu margir vita það þegar upp er staðið? Hvað munu margir vita það í haust eða hvenær sem er að hér hafi verið gerð lagabreyting? Það er þetta sem ég á við með flækjustiginu. Hverjir munu nota þetta? Það er aðallega menntað fólk, menntað fólk sem er auk þess hátekjufólk. Og ég gleymdi því áðan að þetta frumvarp ívilnar hátekjumönnum, að sjálfsögðu. Hjón sem geta dregið þarna frá 300 þús. kr. njóta þess sérstaklega ef þau eru með háar tekjur því að þá lenda þau í háu skattþrepi, og þau fá enn meira endurgreitt en t.d. hjón sem eru undir skattleysismörkum, þau fá ekkert endurgreitt. Þannig að þetta er ófélagslegt. Ég hef svo sem ekkert mikið á móti því en mér finnst það dálítið skrítið hjá félagshyggjustjórn.