138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga.

529. mál
[16:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Í frumvarpi þessu er að finna ákvæði til breytinga sem ætlað er að taka af öll tvímæli um að þeir sem eru í störfum sem heimila aðild að B-deild LSR geti ekki samhliða slíkum störfum tekið ellilífeyri úr B-deild, jafnvel þótt greitt sé af því starfi í annan lífeyrissjóð.

Með lögum nr. 141/1996 voru gerðar verulegar breytingar á þágildandi lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 29/1963, og lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, nr. 16/1965. Breytingarnar voru einkum fólgnar í því að eftirlaunakerfi ríkisstarfsmanna sem verið hafði að stórum hluta fjármagnað með gegnumstreymi skyldi lokað fyrir nýjum sjóðfélögum en í þess stað skyldi stofnað nýtt kerfi með fullri sjóðsöfnun, fjármagnað með samtímaiðgjöldum. Eldra kerfinu, sem er að stórum hluta gegnumstreymiskerfi þar sem launagreiðendur bera ábyrgð á hækkun lífeyris og ríkissjóður er í ábyrgð fyrir greiðslum, skyldi lokað. Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna og eldra eftirlaunakerfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins var því lokað fyrir nýjum sjóðfélögum. Eldra kerfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins var sett í sérdeild sem fékk nafnið B-deild. Greiðandi sjóðfélagar fengu val um að halda áfram greiðslum í óbreytt kerfi eða flytja sig í nýstofnað kerfi, sem fékk nafnið A-deild. Sambærilegt val höfðu sjóðfélagar í Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna.

Við stofnun A-deildar var ekki ætlunin að opna fyrir þann möguleika að sjóðfélagar gætu hafið töku lífeyris úr B-deild eða Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga samhliða störfum sem uppfylltu almenn aðildarskilyrði að sjóðunum. Því voru sett sérstök ákvæði í lögin sem annars vegar er að finna í 37. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, og hins vegar í 26. gr. laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, nr. 2/1997. Ákvæði þessi hafa þó ekki þótt nægilega skýr og hefur umboðsmaður Alþingis látið í té álit sitt í máli nr. 5222/2008 þar sem hann telur sjóðfélaga eiga rétt til töku lífeyris samhliða störfum sem veitt hefðu aðild að B-deild fyrir stofnun A-deildar. Ljóst er þó af lögskýringargögnum sem fylgdu frumvarpi er varð að lögum nr. 141/1996 að ekki var ætlunin með stofnun A-deildar að opna fyrir þann möguleika að heimila lífeyristöku úr eftirlaunakerfi ríkisstarfsmanna samhliða slíkum störfum og jafnvel þótt viðkomandi sjóðfélagar ættu þess ekki kost eftir lokun B-deildar að greiða áfram í deildina.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga hafa hagað framkvæmdinni til samræmis við þá ætlan að greiða ekki lífeyri úr B-deild og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga samhliða störfum sem greitt hefði verið af til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga fyrir stofnun A-deildar. Nú ríkir hins vegar nokkur óvissa eftir að umboðsmaður hefur látið álit sitt í ljós og þykir því nauðsynlegt með lagafrumvarpi þessu að leggja til lagabreytingar sem ætlað er að skýra og styrkja stoðina undir núverandi framkvæmd sem sjá má af fyrri lögskýringargögnum að samræmist vilja löggjafans.

Verði frumvarpið að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð heldur þvert á móti.

Virðulegi forseti. Ég legg því til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.