138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

stimpilgjald og aukatekjur ríkissjóðs.

530. mál
[16:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, og lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði við, til bráðabirgða, ákvæði í lög um stimpilgjald sem heimila undanþágu stimpilgjalds við endurfjármögnun bílalána. Fyrir eru sams konar heimildir til handa þeim sem endurfjármagna fasteignaveðskuldabréf og líka þegar skilmálum slíkra bréfi er breytt og vanskilum er bætt við höfuðstól. Í tilviki bílalána er hins vegar einungis heimild til undanþágu stimpilgjalda við skilmálabreytingar. Er því gerð hér sú tillaga um að samræma þær undanþágur sem þegar eru í lögum.

Þær undanþágur voru settar í ljósi þess ástands sem nú ríkir á fjármálamörkuðum og tilmæla yfirvalda til banka og sparisjóða um að aðstoða fólk sem kynni að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna hækkunar fasteignalána. Slík áhrif ná einnig til bílalána einstaklinga.

Á þeim tíma sem ákvæðin hafa verið í gildi hefur endurfjármögnun bílalána einstaklinga aukist til muna. Í ljósi þess er lagt til að sams konar ákvæði gildi um endurfjármögnun bílalána og endurfjármögnun fasteignaveðskuldabréfa.

Jafnframt þessu er lagt til að ákvæði til bráðabirgða í lögum um aukatekjur ríkissjóðs verði breytt. Þegar áðurgreind bráðabirgðaákvæði í lögum um stimpilgjald voru sett, var að auki heimiluð undanþága frá greiðslu þinglýsingargjalda í þeim tilvikum sem undanþágur laga um stimpilgjald eiga við. Í breytingunni sem nú er lögð til felst að undanþága frá þinglýsingargjöldum á við um öll bráðabirgðaákvæði laga um stimpilgjald sem fjalla um skilmálabreytingar og endurfjármögnun fasteignaveðskuldabréfa og bílalána einstaklinga. Hér er því um samræmingaraðgerð að ræða og til þess að allir sitji við sama borð í þessum efnum í aðgerðum af þessu tagi.

Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.