138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

stimpilgjald og aukatekjur ríkissjóðs.

530. mál
[16:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp um breyting á lögum um stimpilgjald. Að hluta til er þetta lagfæring eða vöruþróun hjá Alþingi sem gerði mistök. 2. gr. gengur út á það að laga þau mistök og er aftur dæmi um það að menn þurfa að vanda betur lagasetningu.

Ég hef alltaf verið á móti stimpilgjaldi. Það er mjög ankannalegur skattur sem heitir stimpilgjald, það þýðir að það á að stimpla eitthvað. Nú er þetta allt orðið rafrænt og samt heitir þetta stimpilgjald. Það er sem sagt verið að stimpla eitthvað sem er rafrænt. Ég sé það ekki alveg fyrir mér en þannig er það.

Af hverju er ég á móti stimpilgjaldi? Vegna þess að það lestar lántakendur verulega, sérstaklega í skammtímalánum. Sumir fara fram hjá þessu, t.d. Seðlabankinn. Hvað gerir Seðlabankinn til þess að losna við þetta? Hann tekur upp endurhverf skuldabréf, þ.e. hann lánar aftur og aftur sama skuldabréfið til að losna við stimpilgjaldið, hann borgar það bara einu sinni. Hann kemur sér fram hjá þessu af því það er útilokað að innheimta stimpilgjald af lánum til einnar viku eða tveggja vikna, það yrði svo óskaplega dýrt.

Svo er það sem við ræðum hérna skattlagning á fátækt, frú forseti. Það er verið að skattleggja fátækt, fólk sem getur ekki borgað af skuldabréfinu sínu. Það er verið að skattleggja eymdina því að þegar menn geta ekki borgað þarf að breyta skuldabréfunum í ný skuldabréf og borga af þeim þannig og gera alls konar skilmálabreytingar og taka ný lán og þá skulu þeir skattlagðir. Þetta var undanskilið tímabundið á fasteignalánum og hér er verið að bæta við bílalánum. Hvers vegna í ósköpunum er þetta bara ekki undanskilið til framtíðar? Að alltaf þegar menn lenda í þeim vandræðum að geta ekki borgað af skuldabréfinu sínu sé ríkið ekki að skattleggja fátækt.

Ég legg til að hv. nefnd, sem ég á sæti í og fær þetta mál til umsagnar og vinnslu, breyti þessu varanlega og ekki bara á bílalánum og fasteignalánum heldur bara lánum yfirleitt sem er skuldbreytt, að ríkið sé ekki með sína krumlu í þeirri eymd og veseni að hafa tekjur af því.