138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að hv. fjárlaganefnd og eftir atvikum þingmenn aðrir sem vilja kynna sér bakgögn í þessu máli fái þau öll greiðlega fram reidd. Ég hef eftir því sem tími hefur leyft grafið mig pínulítið ofan í þetta mál, einfaldlega vegna þess að mér fannst miklu skipta áður en lagt væri af stað að það væru trúverðugar og traustar forsendur undir því að þetta væri skynsamleg ráðstöfun. Eitt er ljóst og það er að ekki er valkostur að gera ekki neitt. Það stefnir í vaxandi mæli í hreint óefni vegna þess að húsnæði á Landspítala – háskólasjúkrahúsi er að ganga úr sér og sumt að verða ónothæft. Það er mikill hausverkur fram undan ef menn ætla eingöngu að halda við eða halda nothæfu því húsnæði sem til staðar er, auk þess sem menn sitja þá áfram uppi inn í langa framtíð með það óhagræði sem er af starfseminni á a.m.k. tveimur stöðum.

Ég sannfærðist um það af yfirlegu á þessum tölum að eftir miklu er að slægjast. Í fyrsta lagi að sameina starfsemina á einn stað. Menn eru að reka sig á það á hverjum degi hversu óhentugt það er að vera með starfsemina dreifða, eins og sjá má t.d. af því að nú er verið að sameina bráðamóttöku á einum stað og reyndar orðið. Því fylgir nokkur kostnaður en engu að síður sparnaður að reka þetta tímabundið á einum stað borið saman við á tveimur stöðum.

Þessar tölur og sérstaklega þær nýjustu sem nú liggja fyrir á grundvelli norskrar ráðgjafar, treysti ég að hv. þingmenn geti fengið. Niðurstaðan er einfaldlega sú að aukinn leigukostnaður vegna nýbygginga og endurbóta á eldra húsnæði muni sparast í samlegðaráhrifunum af því að reka þetta á einum stað. Í grófum dráttum standast þær tölur á og eru af þeirri stærðargráðu sem hv. þingmaður nefndi, kannski um 2,5 til 3 milljarðar króna á ári.

Heildarkostnaður við þetta verkefni er áætlaður um 51 milljarður, þar af 33 milljarðar til nýbygginga, 7 milljarðar kr. í tækjakaup og búnað, auk þess er gert ráð fyrir um 11 milljarða kr. endurbótum á núverandi húsnæði spítalans við Hringbraut sem áfram verður nýtt undir (Forseti hringir.) framtíðarrekstur.