138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[17:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu verður meðferð þessa máls algerlega í samræmi við lög og reglur og reglur um fjárreiðulög, bókhald, ársreikninga og hvað það nú er. Það er einfaldlega verið að fara þá leið að jafna framkvæmdarkostnaðinum yfir líftíma eignarinnar og greiða hann með jöfnum greiðslum allan líftíma eignarinnar, eða samningstímann sem hér er byggt á, í stað þess að gjaldfæra þennan kostnað í einu lagi í upphafi eins og þegar um hefðbundna ríkisframkvæmd er að ræða. Þar af leiðandi kemur þetta ekki inn á fjárfestingarhreyfingar í ríkisbókhaldi eins og ég fór yfir í framsöguræðu minni. Þetta byggir á vandaðri lagalegri skoðun á því að svona geti þetta orðið. Það er ekkert verið að fela þetta, hvorki fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né einum eða neinum. En því er ekki að leyna að aðstæður í okkar ríkisbúskap um þessar mundir hafa hér áhrif á eins og þegar hefur komið fram í umræðunum, að menn hefðu sjálfsagt ekki farið að velta þessari leið fyrir sér til að koma þessari framkvæmd af stað ef aðstæður hefðu verið þannig að ríkið með auðveldu móti hefði getað með beinum hætti skuldsett sig strax og tekið þetta til viðbótar að láni. En það er auðvitað ekki hægt um vik og ekki auðveldur kostur eins og kunnugt er.

Síðan má aldrei gleyma því að þetta er verkefni sem er til staðar og verður að leysa. Þetta er mjög nálægt því sem er svona um það bil það síðasta sem við getum látið eftir okkur, að sinna ekki opinberri þjónustu. Það er miðlægi kjarninn í heilbrigðisþjónustu okkar allri saman þar sem öll erfiðustu verkefnin enda, öll sérhæfðasta þjónustan endar og þar sem ábyrgðin liggur á því, að öll þjónusta sé til staðar. Það er á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Við erum svo innarlega í kjarna heilbrigðisþjónustunnar þegar við erum að tala um þessa hluti, að svo lengi sem hennar verður haldið úti á Íslandi og hún veitt verður þessi kjarni hennar til staðar. Það er borðleggjandi. Við þurfum því ekki mikið að ræða um það hvort þetta sé einhver skuldbinding eða einhver útgjöld sem við getum valið um að sleppa.