138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[17:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má vel vera að við getum ekki komist hjá því að fara í þessa framkvæmd en við eigum að sýna skuldbindinguna. Hæstv. ráðherra talaði um lög og reglur og vandaða lagalega skoðun. Það er hlutverk mitt í stjórnarandstöðu að veita þar aðhald. Ég minni á það að Harpa er ekki í fjárlögum. Það er ekki orð um hana í fjárlögunum. Samt kostar hún ríkissjóð í framtíðinni milljarða eða milljarðatugi. (Gripið fram í.) Því var haldið áfram af núverandi hæstv. menntamálaráðherra, svo best ég veit.

Síðan samþykkti Alþingi fyrir áramót Icesave. Hæstv. fjármálaráðherra — sem nú er genginn úr salnum — skrifaði undir það samkomulag í október. Það var ekki orð um það í fjárlögum eða fjáraukalögum. Icesave, sem búið var að skrifa undir og stóð til að samþykkja þrem dögum seinna, var ekki neins staðar í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það var ekki lítil skuldbinding, frú forseti, það var ekki lítil skuldbinding. Það var risaskuldbinding. Og svo er talað um vandaða, lagalega skoðun. Ég gerði mikla athugasemd við það að Icesave væri ekki inni í fjárlögum eða fjáraukalögum því að eftir áramót var bæði búið að samþykkja lögin og hæstv. fjármálaráðherra búinn að skrifa undir. Það er hlutverk mitt hérna á Alþingi að sýna fram á það þegar menn gera svona mistök, sem ég tel vera mistök, sem stangast á við stjórnarskrána. Þannig að talandi um lög og reglur og vandaða lagalega skoðun, ég verð nú að setja dálítið spurningarmerki við það.