138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[17:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það ánægjulega við hana er að ég hef ekki heyrt annað en að allir þeir þingmenn sem tekið hafa þátt í umræðunni séu sammála verkefninu og telji að í það eigi að ráðast. Það er kannski mest um vert að góð og breið pólitísk samstaða ríkir um það að ráðast þurfi í þá framkvæmd að byggja nýjan Landspítala – háskólasjúkrahús.

Það er hárrétt sem hér hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum að forsaga þessa máls er miklu lengri en rakin er í greinargerð frumvarpsins. Óhemja af gögnum liggur fyrir frá undangengnum árum um það mál, það væru þykkir staflar og frumvarpið hefði verið ansi mikil eyðsla á pappír ef það hefði allt verið tekið með. En þessi gögn liggja öll fyrir og eru opinber, skýrslur og greiningar og greinargerðir frá byggingarnefndum sem starfað hafa á undanförnum árum og vinna úr tíð fyrri heilbrigðisráðherra sem hér hafa gert sig gildandi í umræðunni og auðvitað gjörþekkja þetta mál. En ég leyfi mér að benda á að það sem hér er til umfjöllunar er afmarkaður þáttur þessa máls. Það er lagaumgjörð um félagið sem stendur fyrir hönd ríkisins að þessari framkvæmd og það er tiltölulega einfalt mál í sjálfu sér. Ef menn líta svo á að hér sé málið í heild sinni með öllum faglegum áherslum og rökstuðningi og útreikningum að koma til afgreiðslu, er það allt önnur nálgun. Þá hefði þurft að leggja það mál og þann pakka fyrir í heild sinni og hefði auðvitað staðið nær heilbrigðisráðherra að gera það. Hér er hlutverk fjármálaráðherra það að ganga frá hinu opinbera félagi sem hlutafélagi sem hefur það markmið að standa að þessum undirbúningi og láta bjóða út þessa byggingu og semja um hvernig ríkið tekur hana síðan á langtímaleigu að útboðinu loknu. Ég tel að lagaramminn og greinargerðin og útlistanir að því leyti til séu fullnægjandi.

Gögnin liggja fyrir og eru opinber, skýrslur og greinargerðir. Ég veit að bæði heilbrigðisráðuneytið og Landspítalinn sjálfur eru boðin og búin að reiða það fram fyrir þingnefndir og þingið allt. Það má þess vegna láta það, ef menn vilja, fylgja sem fylgiskjöl eða pakka með nefndaráliti frá nefnd ef menn vilja taka þann þátt málsins allan hér inn. En það er einfaldlega þannig, eins og vísir menn hafa bent hér á, að unnið hefur verið að þessu verkefni nokkur undangengin ár. Byggingarnefndir hafa verið að störfum, keypt hefur verið ráðgjöf og gerðar skýrslur, allt liggur það meira og minna fyrir. Ég held að það sé tiltölulega vel ígrundað og liggi fyrir, bæði útreiknað hvað varðar tölfræðina eða stærðfræðina, fjárhagslegu hliðina, að ógleymdum hinum faglegu þáttum og sjónarmiðum sem auðvitað skipta miklu máli, þ.e. að við búum um nútímahátækniheilbrigðisþjónustu í kjarna hennar á okkar Landspítala þannig að sómi sé að og til framtíðar litið sé þar um fullnægjandi úrlausn að ræða.

Það er misskilningur að þetta frumvarp tefji á nokkurn hátt framgang málsins, hann er á fullri ferð samkvæmt tímaáætlun. Það liggur einfaldlega fyrir að alveg frá því á síðastliðnu vori hefur verið unnið mjög ötullega að þessu verkefni, það er komið mjög vel á veg. Gengið hefur verið frá rammasamkomulagi við lífeyrissjóðina. Farið hefur fram forval á áhugasömum teymum sérfræðinga til að taka þátt í hönnunarsamkeppni. Hún er nú í gangi og reiknað er með að hægt verði að ganga frá þeim málum um mitt sumar þannig að það sé í höfn. Svo fremi sem málið tefjist ekki von úr viti í meðförum Alþingis hefur það engin áhrif á framkvæmdahraðann hvað varðar undirbúningsvinnuna sem er á fullri ferð. Hins vegar er rétt og skylt að ganga frá þessum þætti málsins þannig að hann sé klár. Ég trúi ekki að það vefjist fyrir hinu háa Alþingi svo neinu nemi að ganga frá afar einföldum lagaramma um það opinbera hlutafélag sem fær það verkefni sem því er ætlað hér og skýrt kemur fram í greinargerð. Vonandi er mönnum þá rórra hvað þetta varðar.

Ég fór rækilega yfir það í framsöguræðu minni hvar undirbúningurinn er á vegi staddur og rakti það lið fyrir lið frá því að þessi hreyfing komst á hlutina fljótlega eftir alþingiskosningar á síðastliðnu vori, þegar þetta var undir sem hluti af viðræðum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins við gerð stöðugleikasáttmálans, og þá áfanga skref fyrir skref sem síðan hafa verið teknir með undirritun samkomulags í fyrrahaust, með auglýsingu Ríkiskaupa fyrir áramót, með forvali á áhugasömum hönnuðum, og síðan þeirri samkeppni sem nú er í gangi á þeim efnum. Það tekur auðvitað sinn tíma og lá alltaf fyrir að það er flókið ferli að velja hæfa hönnuði og gefa þeim síðan tíma til að skila afrakstri sínum, þannig að dómnefnd geti metið tillögur og allt þetta. En það er sem sagt allt í gangi og tilvist frumvarpsins eða það að það kemur nú fram hefur engin áhrif haft á það ferli, ekki nokkur, og á ekki að þurfa að gera svo fremi sem allt gangi eðlilega fram.

Málið er í traustum farvegi, að ég tel, og unnið dyggilega að því af hálfu þeirra sem fyrst og fremst hafa það hlutverk með höndum, sem eru auðvitað heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisráðuneytið og Landspítalinn sjálfur sem nú hefur forustuna í verkefninu, ef ég veit rétt. Hann er svona burðarásinn í þeirri framkvæmd eða aðkomu heilbrigðisyfirvalda að því verkefni, ekki sérstök byggingarnefnd eins og áður var, skipuð mörgum merkum mönnum gegnum tíðina eins og kunnugt er. Þannig er málið vaxið.

Ég endurtek að mér ánægjuefni að heyra það að þingmenn eru almennt sammála um að ráðast eigi í þetta verkefni og ég tel að það þurfi ekki að valda neinum vandræðum ef menn vilja fá frekari gögn og upplýsingar um þetta en reiddar voru fram hér í einföldu frumvarpi af hálfu fjármálaráðuneytisins sem snýr fyrst og fremst að þessum þætti málsins eins og ég hef reynt að útskýra.