138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[18:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að menn séu óþreyjufullir og vilji komast hratt áfram í þessu máli en ég held að hafa verði í huga hvað hefur á daga okkar Íslendinga drifið frá haustmánuðum 2008. Það voru nú ekki alveg venjulegar aðstæður við að glíma hér á fyrstu mánuðunum eftir þau ósköp, síðan ríkisstjórnarskipti, alþingiskosningar og myndun nýrrar stjórnar. Frá og með því að kosið var og ný ríkisstjórn komst til valda hefur verið unnið samfellt og mjög ötullega að þessu verkefni.

Ég fullyrði við hv. þingmann að lífeyrissjóðirnir eru ánægðir með í hvaða farvegi þetta mál er, ég hef sjálfur rætt við þá um það. Ég held að þetta sé það verkefni sem hefur verið tekið hvað föstustum tökum og er í sjálfu sér komið lengst. Það lá alltaf fyrir að byggingarframkvæmdir í þessu tilviki gætu ekki hafist fyrr en að undangengnum óumflýjanlegum undirbúningstíma, það er mikið ferli sem þar þarf að fara í gegnum. Ég hef ekki heyrt annað en að menn séu sáttir við hvernig að þessu hefur verið unnið alveg frá því að hreyfing komst á málin snemmsumars í fyrra. Þvert á móti hef ég ástæðu til að ætla að menn telji einmitt að þetta mál sé á réttu spori og í raun og veru samkvæmt þeim áætlunum sem menn settu sér að vinna eftir, að klára þá þætti málsins á þessu ári sem nú stendur til að gera. Þá vitum við að framkvæmdirnar geta farið af stað af fullum krafti á síðari hluta árs 2011, eða í öllu falli að framkvæmdatíminn sem þeir hafa haft í sigti eigi að nást.