138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[18:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að skynja þann mikla áhuga sem er á þinginu fyrir að taka þetta mál föstum tökum og skoða það rækilega í nefnd. Ég fagna því. Ég endurtek að það sem er undir núna er að setja lagaramma um opinbera hlutafélagið sem fer með þennan þátt, tekur að sér samningana og leggur fram hlutafé, eignir eða lóðaréttindi eftir atvikum. Það er niðurstaða okkar og við gerum engar athugasemdir við það. Ég er alveg sammála því sjálfur, og var það áður en álit Ríkisendurskoðunar lá fyrir, að í svona stóru máli er æskilegt að setja um það sérlög. Út af fyrir sig má segja að Alþingi hafi þegar lýst yfir vilja sínum með þessa framkvæmd á margvíslegan hátt á undanförnum árum, t.d. með fjárveitingum til undirbúnings og með því að samþykkja heimildarákvæði í 6. gr. til að leggja lóðaréttindi til framkvæmdarinnar. Miðað við hefðir og venjur mætti halda því fram að Alþingi hefði þegar gefið framkvæmdinni sitt græna ljós. Við erum þó sammála um að vegna eðlis og stærðar verkefnisins og í anda góðrar stjórnsýslu eigi að gera enn betur og ganga sérstaklega frá því með lögum að félag fái þetta hlutverk skilgreint og skýrt og hafi tiltekin réttindi og skyldur í þeim efnum. Það er undir í þessu frumvarpi og ég ímynda mér að allir eigi að geta verið ánægðir, hamingjusamir og glaðir og farið heim vinir.