138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[18:13]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að öll dýrin í skóginum séu vinir en málið snýst ekki um það. Þrátt fyrir að við höfum séð þetta verkefni á fjárlögum í heimildarákvæðum mörg undangengin ár þá breytast aðstæður í heilbrigðisþjónustu og ekki síður í afkomu ríkisins. Í dag er staðan sú að við glímum við þann vanda að reka ríkissjóð með 100 milljarða kr. halla og aðstæðurnar eru allt aðrar en nokkurn tímann á undangengnum árum. Þess vegna kallar viðfangsefnið á að við leggjumst gaumgæfilega yfir það verkefni sem við erum að fara út í. Athugasemdir mínar eru í þeim anda.

Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til þess að fara í þetta verkefni undir þeim formerkjum. Ég dreg í efa, eins og komið hefur fram í máli mínu, að þær áætlanir um kostnað sem hér liggja fyrir muni standast, þó ekki væri nema í ljósi þess að engin hönnun liggur fyrir um þessa framkvæmd og í ljósi reynslunnar af kostnaðaráætlunum sem hafa ekkert með afkomu ríkissjóðs að gera. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra enn og aftur hvaða heimildir hann telji að þetta væntanlega hlutafélag hafi til þess að skuldbinda ríkissjóð um greiðslu í komandi framtíð.