138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu o.fl.

580. mál
[18:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég sé það, frú forseti, að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur mikinn áhuga á því að efla viðskipti við Kína og ég er honum sammála um það. Til frambúðar tel ég að Kínverjar verði ákaflega mikilvægt viðskiptaríki við okkur. Eins og staðan er núna er það hins vegar svo að útflutningur okkar til Kína er allt of lítill. Í samanburði við t.d. Evrópusambandið er það eins og himinn og hundaþúfa.

Nú verð ég að viðurkenna það fyrir hv. þingmanni að hann kann að vera betur að sér um það hvenær síðasti fundur var haldinn, eftir rosknu minni held ég að það hafi verið í apríl á síðasta ári en ég þyrði ekki að leggja líf mitt að veði fyrir því.

Ekki vil ég fara hér opinberlega með þau helstu ágreiningsmál sem hafa komið upp en ég get þó sagt það við hv. þingmann að það sem kannski gerir það helst að verkum að ekki hafa menn fallist eins og systkin í faðma yfir samningaborðum er aðallega tvennt, það er vinnuafl og það er sjávarafurðir og aðlögunartími varðandi tollabreytingar á þeim. Hv. þingmaður veit að krafa Íslands í öllum samningaviðræðum um frjálsa verslun hefur alltaf verið og verður alltaf tollfrjáls aðgangur fyrir sjávarafurðir. Þetta var það sem skipti langmestu máli þegar við vorum að semja um EES og þetta er það sem við leggjum mikla áherslu og vinnu til að ná fram.

Að öðru leyti, frú forseti, finnst mér alltaf gaman að eiga orðaskipti við hv. þingmann um Evrópusambandið. Mér fellur illa af því að ég hef svo mikla trú á hinum unga þingflokki Framsóknarflokksins, þegar þeir koma hérna drengirnir og segja að þeir séu algjörlega vissir um að við förum ekki í Evrópusambandið af því að það sé svo vont, en við vitum ekki hvaða samningur verður í boði fyrir okkur. (Forseti hringir.) Ég spái því, af því að hv. þingmaður er snjall og framsýnn, að sá tími muni koma að honum ferst eins og lærisveininum Tómasi, þegar hann leggur höndina í sárið (Forseti hringir.) mun hann trúa.