138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu o.fl.

580. mál
[18:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki rétt. Ef það hefur gerst hefur það gerst mjög nýlega og án þess að mér sé kunnugt um það, en það er alls ekki rétt. Þvert á móti eigum við ákaflega vinsamleg samskipti við Kínverja. Eins og hv. þingmaður veit hafa þeir áhuga á því að koma með einhverjum hætti að fjárfestingum hér á landi og hafa verið að skoða ýmsa kosti.

Varðandi Evrópusambandið er það einfaldlega þannig að ef hv. þingmaður fer um ríki Evrópusambandsins, þau sem nýlega hafa t.d. gengið í Evrópusambandið, mun honum verða sagt að fjölmargar undanþágur hafi verið veittar. Ég er ekki að halda því fram, en hv. þingmaður ætti að spyrja t.d. Maltverja og aðra slíka. Ég hef hins vegar sagt við hv. þingmann í umræðum, og við hina góðu og námsfúsu hv. þingmenn Framsóknarflokksins, að það sé reynslan af Evrópusambandinu að það sýni mikla hugkvæmni í að túlka sínar eigin reglur til þess að búa til klæðskerasniðnar lausnir fyrir ríki með sérstaka hagsmuni. Hv. þingmaður getur t.d. skoðað sumarbústaðajarðir á Jótlandi, fiskveiðar á Möltu, landbúnað í Ölpunum, en þó einkum og sér í lagi landbúnað norðan 62° í Finnlandi. Þar eru tvenns konar lausnir uppi. Önnur er alveg klárlega ekki varanleg, hin lausnin sem orðuð er í samningnum með þeim hætti að það er ekki hægt að þýða það beinlínis svo að hún sé varanleg en Finnar sjálfir túlka það hins vegar þannig og líta svo á að hún sé varanleg. Orðanna hljóðan kann að vera öðruvísi.

Að því er varðar síðan ýmislegt sem við munum þurfa að taka upp frá Evrópusambandinu eftir regluverki þeirra, t.d. stofnanir innan landbúnaðargeirans, þá hafa flokksmenn hv. þingmanns lýst því með mjög grafískri nákvæmni hvað við munum þurfa að setja upp ofboðslegt stofnanabatterí á Íslandi. Við skulum spyrja að leikslokum. Við skulum skoða og sjá hvað kemur út úr því og kannski verður hv. þingmaður dálítið hissa þá, ef hann getur orðið meira hissa en hann er í dag.