138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu o.fl.

580. mál
[18:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki alveg, ég ætla reyndar að setja sviga utan um þessa tölu, en einhvers staðar kom það fram að um 600 manns vinni á greiðslustofu landbúnaðarstyrkja í Svíþjóð. Mér finnst það svolítið … (Utanrrh.: Hrollvekjandi tala.) Já, þetta er hrollvekjandi tala, hæstv. ráðherra, það er alveg hárrétt, en hún er greinilega atvinnuskapandi að einhverju leyti.

Mig langar líka að velta því upp við hæstv. ráðherra varðandi einmitt Finnland. Er það svo, getur það verið þannig að þær „undanþágur“, og nú set ég þetta innan gæsalappa reyndar sem hæstv. ráðherra talar hér um, eru það ekki heimildir Finna til að bæta við þá styrki sem Evrópusambandið er að borga í dag sem komu úr finnskum ríkissjóði? (Utanrrh.: Jú, jú.) Ja-á, og er það stóri draumurinn að geta verið með kerfi þar sem Ísland er hvort sem er að styrkja þær greinar sem þeir styrkja í dag?

Ég verð að segja fyrir hönd íslensks sjávarútvegs, og ég tek mér það mikið vald núna að vera svolítið móðgaður fyrir hönd íslensks sjávarútvegs, hæstv. ráðherra, og fiskstofna þá um leið, að líkja þeim við, eru það ekki 1.300 tonn af sardínum sem Maltverjar geta veitt eða eitthvað slíkt? Mér finnst það dálítið sérstakt ef við erum að líkja því saman við þá samninga og þá mikla hagsmuni sem Íslendingar hafa, hvað þá að tala um sumarbústaðajarðirnar sem mér finnst alveg stórmerkilegt. Ég vona að við fáum líka þær undanþágur eða látum á það reyna í samningaviðræðum að við fáum undanþágur fyrir Grímsnesið og þau helstu svæði sem við þurfum á að halda. En ég sé ekki, hæstv. ráðherra, að það skipti höfuðmáli fyrir Ísland sem er að sjálfsögðu það sem snýr að grundvallarhagsmunum okkar í sjávarútvegi, landbúnaði, orkumálum, náttúruauðlindum og jafnvel fullveldi. Mér finnst því svona frekar ódýrar þessar meintu undanþágur.