138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu o.fl.

580. mál
[18:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður Framsóknarflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, þarf nú ekki að tala mikið um orkumálin, ég held að hans flokkur hafi gert nóg í þeim efnum og hafi jafnvel farið fram úr björtustu óskum Evrópusambandsins um breytingar á því sviði.

Varðandi landbúnaðarmálin og stofnanabatterí landbúnaðarkerfisins, það er hárrétt, 600 manns í Svíþjóð. Nú ætti hv. þingmaður að nota hugarreikning og reikna út hvað það eru margir miðað við stærð Íslands í dag og skoða síðan hversu margir vinna nú þegar í því batteríi að sýsla að þessum málum. Það er þó ekki það sem ég ætlaði að vekja eftirtekt hv. þingmanns á heldur hitt að við skulum spyrja að leikslokum.

Ef hv. þingmaður hefur rétt fyrir sér, munum við enda með samning sem þjóðin greiðir síðan atkvæði um og ég ber fram á Alþingi Íslendinga þar sem er búið til þetta rosalega stofnanabatterí. Ég held ekki. Ég ætla ekki að segja hv. þingmanni hver ég held að verði niðurstaðan í því. Hitt er klárt að og hef ég sagt það að ég, fyrir hönd íslenska ríkisins, mun freista þess í fyrsta lagi að gera kerfið miklu einfaldara, setja fram kröfur fyrir hönd Íslands hugsanlega um að sameina þessar stofnanir, sem einhver góður þingmaður Framsóknarflokksins reiknaði út að væru sjö eða átta, sameina þær í eina og hugsanlega ganga lengra, hugsanlega nota einhverjar stofnanir sem nú eru þegar til innan íslenska ríkisins. Og ég veit hvaðan hv. þingmaður er og hann getur þá velt fyrir sér hvað ég er að hugsa.

Í öðru lagi varðandi sjávarútveginn, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er ekki hægt að jafna saman sjávarútvegi Möltu og Íslands. En aftur segi ég: Við skulum spyrja að leikslokum, við skulum sjá hver niðurstaðan verður. Ef hún verður svona eins og hv. þingmaður er að spá, kem ég auðvitað, sem utanríkisráðherra, eins og halaklipptur hundur með vondan samning. Það er ekki flóknara en það. Hv. þingmaður mun (Forseti hringir.) þá hafa fullgild rök til þess að sannfæra þjóðina um að fella þann samning. En ég held ekki (Forseti hringir.) að lyktir málsins verði þessar, með fullri virðingu, frú forseti.