138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:22]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal segist ekki vita hve lengi ég hafi verið formaður og varaformaður í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Ég hef aldrei verið þar í stjórn, (Gripið fram í.) ég hef hins vegar verið í stjórn LSR en er það ekki lengur, það var ranghermt hjá hv. þingmanni að ég sæti þar enn þá. Það er staðreynd.

Það er ekkert nýtt að hv. þm. Pétur H. Blöndal reyni að sá fræjum tortryggni í garð Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem er í senn lífeyrissjóður og gegnumstreymiskerfi sem lokað var 1. janúar árið 1997. Aðeins 20% þeirra sem eru í starfi hjá ríkinu eru núna í þeirri deild lífeyrissjóðsins, allar nýráðningar eru í A-deildinni sem er hönnuð þannig að hún sé sjálfbær. Það er hins vegar rétt að í þeirri deild eru réttindin föst en iðgjöldin breytileg.

Innan verkalýðshreyfingarinnar hafa verið mismunandi áherslur um hvað sé rétt að gera í þessum efnum. Ég hef persónulega verið því fylgjandi að stefna að kerfi þar sem lífeyrisréttindin eru föst en kaupmáttur launanna breytilegur. Um þetta eru skiptar skoðanir. Sumum finnst við setja of mikla fjármuni í lífeyrissjóði og í ljósi hrunsins er vissulega ástæða til að skoða á gagnrýninn hátt sjóðsmyndunina og hvort þetta sé heppilegasta formið sem fyrir finnst. Ég hefði talið að hv. þingmaður ætti að beina sjónum sínum að lífeyrissjóðunum, ekki með það í huga að skerða réttindin heldur skoða hvernig á því standi að þörf sé á því. (Gripið fram í.) Það þarf að sjálfsögðu að gera með hliðsjón af þeirri skýrslu sem núna hefur verið sett fram en fyrsta hugsunin sem vaknar hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal (Forseti hringir.) er í hina áttina, hvernig hægt sé að skerða réttindi lífeyrisþega. (Gripið fram í.)