138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[12:35]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum er hluti af heildstæðum breytingum sem áformaðar eru á skipan stofnana löggæslu- og sýslumannsembætta. Segja má að frumvarp til lögreglulaga sé fyrri áfanginn en í því er lagt til að fækka lögregluumdæmum úr 15 í sex og samhliða því að skilja yfirstjórn lögreglu frá embættum sýslumannsembætta. Starfsemi þessara tveggja stofnanaflokka er nátengd, enda eru 13 sýslumenn einnig lögreglustjórar.

Gert er ráð fyrir að breytingarnar á skipan löggæsluembætta taki gildi í upphafi næsta árs eins og fram kemur í þessu frumvarpi. Stefnan verði tekin á síðari áfanga á komandi haustþingi en þá verði lagt fram frumvarp um breytta skipan sýslumannsembætta. Skipan sýslumannsembætta taki mið af skiptingu landsins í stjórnsýslusvæði samkvæmt sóknaráætlun 20/20. Stækkuð sýslumannsembætti verði stjórnsýslumiðstöð ríkisins í héraði og unnið verði að því í samstarfi við önnur ráðuneyti að færa verkefni og þjónustu til þeirra. Það, virðulegi forseti, er lykilatriði en ljóst er að mikil tækifæri felast í því að fela stærri og öflugri sýslumannsembættum fjölþætt verkefni sem eru á hendi ríkisvaldsins og jafnvel víðar. Ákveðin grunnvinna hefur verið unnin í sambandi við tillögur að breytingum á skipan sýslumannsembætta í landinu sem finna má í skýrslu Þorleifs Pálssonar, fyrrverandi sýslumanns, en skýrslan hefur verið birt á vef ráðuneytisins.

Í frumvarpi til laga um breyting á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði er í grófum dráttum lagt til að heimilað verði að auglýsa ekki störf sýslumanna sem losna og er miðað við að í stað þess verði sýslumanni úr aðliggjandi umdæmi falið að gegna lausu embætti og jafnframt sínu eigin. Þetta tengist vitaskuld þeim breytingum sem áformuð eru í þessu frumvarpi en einnig því sem er áformað að leggja til á næstu missirum.

Fjögur ný lögregluembætti verða til ef frumvarpið verður samþykkt. Hugmyndin er sú að sýslumönnum fækki sem því nemur með því að sýslumenn í nágrenninu taki við sýslumannsverkefnum frá þeim sem verða lögreglustjórar, eins og ég greindi frá áðan. Þannig, virðulegi forseti, og ekki öðruvísi tel ég að sú hagræðing sem frumvarpið felur í sér náist fram.

Víkjum nánar að tillögum að breytingum á lögreglulögum. Þær eru afrakstur vinnu sem hefur farið fram á vegum dómsmála- og mannréttindaráðuneytis undanfarin missiri. Tillögur frumvarpsins eru í raun framhald af þeirri braut sem mörkuð var með sameiningu lögregluliða árið 2007. Nefnd þáverandi dómsmálaráðherra, sem skipuð var til að meta árangur af þeim skipulagsbreytingum sem tóku gildi 2007, komst að þeirri niðurstöðu árið 2008 að árangur af nýskipan lögreglumála hefði verið góður en ljóst væri að vart væri hægt að ná markmiðum sem stefnt væri að nema lögregluliðin yrðu stækkuð enn frekar. Nefndin lagði fram ýmsar aðrar ábendingar, m.a. um að rétt væri að lögreglustjórum yrði gert kleift að sinna eingöngu lögreglustjórn.

Þótt efni frumvarpsins taki vissulega mið af þessari niðurstöðu byggir frumvarpið einnig á ítarlegri vinnu sem unnin var af starfshópi sem skipaður var sl. sumar. Í starfshópnum sátu fulltrúar ráðuneytisins og skólastjóri Lögregluskóla Íslands. Starfshópurinn ræddi við ýmis samtök lögreglumanna, lögreglustjóra, fulltrúa ákæruvalds og fleiri. Á síðari stigum í starfi hópsins störfuðu fulltrúar Landssambands lögreglumanna og Lögreglustjórafélagsins með starfshópnum en afar dýrmætt var að fá þessa aðila að borðinu sem best þekkja til og eru fulltrúar þeirra sem starfa í lögreglunni. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í október 2009 og er hún fylgiskjal með þessu frumvarpi. Þannig byggir frumvarpið í rauninni á tveimur úttektum sem báðar fela í sér þá meginniðurstöðu að fækka beri lögregluumdæmum í sex til átta og skilja lögregustjórn frá sýslumannsembættum.

Með frumvarpinu er auk fækkunar lögregluumdæma lagt til að lögfest verði almenn heimild til að fela einstökum lögregluembættum verkefni á landsvísu, m.a. verkefni sem nú heyra undir embætti ríkislögreglustjóra. Í þriðja lagi eru ýmis ákvæði sem varða einstakar stöður felld úr lögunum en gert er ráð fyrir að samhliða lagabreytingunni verði skipurit embætta ýmist sameinuð eða endurskoðuð með það fyrir augum að draga úr kostnaði við yfirstjórn.

Á bak við þá heimild sem lagt er til að ráðherra fái til að koma verkefnum á landsvísu fyrir hjá einstökum lögreglustjórum er ákveðin stefnumótun. Ég tel að það geti verið að mörgu leyti óheppilegt fyrirkomulag að embætti ríkislögreglustjóra sinni samræmingu, eftirliti og yfirstjórn á sviði löggæslunnar og virki þannig sem hattur ofan á lögregluembættin en reki um leið eitt stærsta lögreglulið landsins. Því tel ég nauðsynlegt að fara yfir ýmis verkefni með það fyrir augum að færa þau frá embætti ríkislögreglustjóra til einstakra lögregluembætta. Í þessu sambandi legg ég áherslu á að í þessu felst ekki gagnrýni á þau verkefni sem innt eru af hendi í ranni ríkislögreglustjóra. Þau verkefni hafa mörg hver verið byggð upp í embætti ríkislögreglustjóra og eru rekin þar með sóma en ég tel að við verðum að fara yfir þetta faglega, skoða hvert og eitt verkefni og athuga hvort tilefni sé til að færa þau til annarra lögregluliða. Þar spilar ekki síst inn í myndina að þá verðum við búin að fá öflugri og stærri lögreglulið í landinu.

Um leið tel ég að við verðum að fara yfir einstök verkefni sem nú eru unnin í lögregluliðunum og spyrja okkur hvort hagkvæmara sé að vinna þau á einum stað fyrir alla lögregluna. Þetta legg ég til að verði gert á vegum ráðuneytisins. Þessi skoðun kallar einnig á umræðu um hvert verði hlutverk ríkislögreglustjóra, eins og ég sagði áðan. Fleira gæti kallað á slíka endurskoðun og þar vísa ég til ráðagerða sem fram koma í frumvarpi utanríkisráðherra til laga um breyting á varnarmálalögum sem útbýtt hefur verið hér á Alþingi.

Ef frumvarpið verður að lögum verða, eins og áður segir, sex lögregluembætti á landinu auk ríkislögreglustjóra og Lögregluskólans, eitt á höfuðborgarsvæðinu, annað á Suðurnesjum og hið þriðja á Vesturlandi og Vestfjörðum, fjórða á Norðurlandi, fimmta á Austurlandi og loks eitt embætti á Suðurlandi. Í frumvarpinu er að finna mikilvæga heimild þess efnis að heimilt verði að fela sýslumanni daglega lögreglustjórn í umdæmi sínu í umboði viðkomandi lögreglustjóra þar sem aðstæður krefjast þess, t.d. vegna samgangna. Þannig er tekið tillit til mismunandi aðstæðna í landshlutum. Ég tel að huga verði að því að beita þessari heimild t.d. í umdæmi lögreglustjórans á Vesturlandi og Vestfjörðum, m.a. með vísun til sjónarmiða um almannavarnir. Einnig þyrfti að huga að þessari heimild í Vestmannaeyjum með vísun til staðhátta. Heimild þessi er upphaflega lögð til í fyrrgreindri skýrslu Þorleifs Pálssonar, fyrrverandi sýslumanns í Kópavogi.

Rætt er um stærri og öflugri lögregluembætti ef frumvarpið verður að lögum. Hvað þýðir það fyrir lögregluliðin? Hjá lögregluembættunum yrðu eftir lagabreytinguna á bilinu 50 til rúmlega 80 ársverk lögreglumanna, að undanskildu embættinu á Austfjörðum sem er með nálægt 30 ársverk og höfuðborgarsvæðinu sem sker sig mjög úr með ríflega 300 ársverk. Þótt stofnanirnar sýnist fljótt á litið ekki mjög fjölmennar er rétt að hafa í huga að núna rekum við níu lögreglulið með um eða innan við 12 ársverk lögreglumanna. Það virðist augljóst að við getum fengið meiri slagkraft úr lögreglunni með því að skipta henni í stærri einingar. Ég kem nánar að faglegum rökum fyrir skipulagsbreytingum hér á eftir. Það er líka útilokað að leggja fyrir menn að hagræða frekar en orðið er í rekstri en horfa um leið fram hjá því óhagræði og stjórnunarkostnaði sem hlýst af núverandi skipulagi.

Sem fyrr segir er lagt til að lögreglustjórarnir komi úr hópi þeirra sem nú sinna lögreglustjórn. Tekið skal fram að í þessu frumvarpi er ekki mælt fyrir um hvar höfuðstöðvar embætta skuli vera eða hvernig lögreglustjórar skuli skipuleggja lið sín að öðru leyti. Það virðist einsýnt að lögreglustjórarnir sem bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa í sínu umdæmi fái svigrúm til að stilla liði sínu upp þannig að það nýtist sem best. Mikilvægt er að undirstrika að ekki verða byggðar nýjar stórbyggingar undir þessi lögregluembætti heldur verður að nýta þá aðstöðu sem til er. Mun það án vafa ráða miklu um staðsetningu starfseminnar, a.m.k. næstu árin.

Lagt er til að hver lögreglustjóri skipi sjálfur lögreglumenn í sitt embætti en það gerir ríkislögreglustjóri nú. Eðlilegt er að sá sem ber ábyrgð á störfum undirmanna sinna skipi starfsmenn sína, enda er það hann sem hefur heimild starfsmannalaga til áminningar á hendi sinni. Skipunarvald í stöður yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna færist frá dómsmálaráðherra til embættis ríkislögreglustjóra. Rökin fyrir því að færa ekki allar skipanir að fullu til embættanna í einu lagi eru annars vegar þau að heppilegra sé að gera breytingar að þessu leyti í áföngum og hins vegar að mikilvægt sé að haldið sé á skipunarmálum stjórnenda embættanna með samræmdum og tryggum hætti þegar hin nýju sameinuðu embætti taka til starfa. Samkvæmt frumvarpinu verða hæfisskilyrði lögreglustjóra í sjálfum lögreglulögunum í stað þess að vísað sé í hæfisreglur sýslumanna, sem aftur vísa í hæfisskilyrði dómara.

Ákveðnar breytingar verða samkvæmt frumvarpinu á högum Lögregluskólans og nemenda hans. Gert er ráð fyrir að nemendur verði á launum við starfsþjálfun innan lögreglunnar á vegum skólans en að öðru leyti verði námið ekki launað. Nemendur gætu þá fengið námslán eins og nemendur í öðrum skólum. Hér er um að ræða framþróun á skólanum í sömu átt og stefnt hefur verið að undanfarin ár. Rétt er að rifja upp að til skamms tíma tók skólinn við lögreglumönnum sem lögreglustjórar höfðu þegar ráðið til starfa og höfðu oft unnið í lögreglu um árabil áður en þeir fóru í gegnum Lögregluskólann. Þeir voru þá sendir til skólans sem starfsmenn viðkomandi lögregluembættis á fullum launum og dagpeningum. Smám saman hefur þetta breyst. Lögregluskólinn velur nú nemendur úr hópi umsækjenda og útskrifar þá til starfa í lögreglu. Fyrirkomulag á greiðslum hefur breyst í samræmi við þetta. Námið í Lögregluskólanum stendur í heilt ár og skiptist í þrjár annir, þar sem miðönnin felst í starfsþjálfun í lögregluliði. Greiðslur fyrir nám á fyrstu önn voru felldar niður fyrir allnokkru síðan en samkvæmt gildandi lögum taka lögregluembættin nemendur í starfsþjálfun og greiða þeim laun samkvæmt kjarasamningi. Á lokaönn námsins hafa lögreglunemarnir fengið laun sem Lögregluskólinn greiðir. Rekstur lögregluembætta er erfiður og fyrrgreint fyrirkomulag gengur ekki lengur vegna fjárskorts, auk þess sem sá faglegi galli hefur ávallt verið á fyrirkomulaginu að fremur hefur verið litið á starfsþjálfunarnema sem afleysingamenn en nemendur. Lagt er til að skólinn sjái nemendum fyrir starfsþjálfun í lögreglunni á annarri önn í a.m.k. fjóra mánuði og greiði þá föst mánaðarlaun þeirra. Hins vegar verður hætt að greiða lögreglunemum laun á lokaönn námsins í skólanum.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er ekki um að ræða heildarendurskoðun á lögreglulögum. Mörg ákvæði þeirra kalla á yfirferð og breytingar og ýmsir hafa orðið til að benda á möguleika á mun róttækari uppstokkun en hér er lagt til. Markmið þess frumvarps sem hér um ræðir miðast við að gera fremur einfaldar breytingar sem geta komið hratt til framkvæmda og auðvelda lögreglunni sem stofnun að bregðast við hagræðingarkröfu sem gerð er til hennar. Eðli málsins samkvæmt er aldrei hægt að sjá fyrir allar fjárhagslegar afleiðingar breytinga af þessu tagi. Ljóst er þó að þessar breytingar skapa svigrúm til að spara töluvert í veigamiklum þáttum á borð við stjórnunarkostnað. Fjárveitingar til löggæslu nema samtals um 7,3 milljörðum kr. Engum blöðum er um það að fletta að lækkun útgjalda í samræmi við hagræðingarkröfur fjárlaga komandi ára verður lögreglunni mjög erfið og gerist einkum með fernum hætti.

Í fyrsta lagi leiðir af stækkun embætta að yfirmönnum fækkar hlutfallslega meira en almennum lögreglumönnum.

Í öðru lagi má gera ráð fyrir að lögreglumönnum sem og öðru starfsfólki lögregluembætta fækki í heildina á næstu árum með því að nýráðningar munu ekki vega að fullu upp á móti fækkun vegna þeirra starfsmanna sem fara á eftirlaun eða hverfa til annarra starfa.

Í þriðja lagi er áætlað að samþætting verkefna á landsvísu við einstök umdæmi lögreglu komi til með að nýta betur starfsfólk og að samhliða endurskipulagningu á öllu innkaupaferli lögreglu náist fram töluverð hagræðing.

Í fjórða lagi er áætlað að skipta fjárveitingu til löggæslu upp með sanngjarnari og faglegri hætti en verið hefur fram til þessa. Í því skyni verður útbúið reiknilíkan sem tekur tillit til íbúafjölda, aldursdreifingar, fjölda afbrota, umferðarþunga og ýmissa annarra þátta í stað þess að taka eingöngu mið af fjárheimildum fyrra árs. Munu því fjárveitingarákvarðanir verða gagnsærri og samanburður milli embætta auðveldari þar sem hægt verður að rekja hvernig mismunandi aðstæður hafa áhrif á fjárveitingar.

Engu að síður hefur verið lagt gróft mat á ýmsa kostnaðarþætti og hagræðingarmöguleika þeim tengdum. Þar má nefna fækkun yfirmanna en samsvarandi fjölgun almennra lögreglumanna gæti skilað um 120 millj. kr. sparnaði á ársgrundvelli þegar sá sparnaður er kominn að fullu til framkvæmda. Í þessu sambandi skal nefnt að ekki er gert ráð fyrir uppsögnum starfsmanna í tengslum við þessa sameiningu, þ.e. sameiningin ein og sér felur ekki í sér uppsagnir. Ný lögreglulið munu taka við öllum skuldbindingum eldri embætta, þar á meðal öllum ráðningarsamningum. Í fyllingu tímans mun yfirmönnum fækka með stækkuðum embættum. Þegar ég segi að sameiningin ein og sér feli ekki í sér uppsagnir gegnir öðru máli um skertar fjárheimildir, því það segir sig sjálft að ekki er hægt að halda úti óbreyttri starfsemi endalaust með minnkuðum fjárheimildum úr ríkissjóði. Þá vil ég nefna að sameining lögregluliða með fækkun bakvakta gæti einnig skilað rúmlega 100 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ég hef nú reifað helstu atriði frumvarpsins. Eins og ég kom inn á áðan fylgir greinargerð starfshópsins með frumvarpinu sem fylgiskjal. Þar koma fram margvísleg fagleg rök fyrir því að hafa færri og stærri lögregluumdæmi. Ég geri ráð fyrir því að þetta frumvarp muni hljóta mjög almenna og víðtæka umræðu og að allsherjarnefnd fái frumvarpið sent til umsagnar. Eins og ég drap á í upphafi er gert ráð fyrir að frumvarpið taki gildi 1. janúar 2011, þó þannig að dómsmálaráðherra geti undirbúið starfsemi hinna nýju lögregluliða með því að velja þeim lögreglustjóra og fela verkefnisstjórn að vinna að undirbúningi breytinganna. Rétt er að taka fram að gert er ráð fyrir að ný lögregluembætti taki við starfsmönnum eldri embætta, eins og ég sagði áðan. Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til allsherjarnefndar og 2. umræðu.