138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[12:52]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg verið sammála því að það er brýnt að ljúka kjarasamningum við lögreglumenn og að það sé afleit staða að þeir séu lausir og við séum akkúrat að ræða þetta frumvarp núna. Ég taldi mér hins vegar ekki annað fært en að leggja þetta frumvarp fram á þessu þingi því að það er mjög brýnt að vinna að þessum skipulagsbreytingum innan lögreglunnar, ekki síst með tilliti til þess að fjárheimildir fara nú minnkandi og ætla ég nú ekkert að fara yfir það aftur.

Hvað það varðar að hugsa þurfi fyrir því hvar borið sé niður þegar hugað er að fækkun opinberra starfa þá er ég algjörlega sammála hv. þingmanni og ég hef af ásettu ráði ákveðið að slíta þessi mál í sundur þótt tengd séu, annars vegar breytingar á lögreglunni og hins vegar á sýslumönnum, því að í rauninni eru þau ekki tengdari en svo að það er hægt að gera þetta í þessum áföngum. Þannig gefst þinginu tækifæri til þess að taka afstöðu til breyttrar skipanar á lögregluumdæmum. Þegar þar að kemur getur þingið fjallað um sýslumennina en ef þetta frumvarp verður að lögum er ekki óumflýjanlegt að samþykkja breytingar á skipan sýslumannsembætta þótt ég telji að svo sé en það er önnur saga.

Ég er alveg sammála því að það þarf að fara mjög varlega í að segja við heilu byggðarlögin að nú eigi að kippa burtu opinberri stofnun eða embætti. Þess vegna hef ég sagt að þetta sýslumannsmál, þ.e. endurskipulagning sýslumannsembætta, sé ekki bara mál dómsmálaráðuneytis. Þetta er mál alls ríkisvaldsins og jafnvel sveitarfélaga. Vilja menn hafa þessi embætti í byggðarlagi? Ef svarið er já skulu menn líka athuga hvaða verkefni þar er hægt að inna af hendi og vinna með okkur í dómsmálaráðuneytinu að því.