138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[12:57]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því að það þarf að huga vel að tæknilegum atriðum, þ.e. útfærslu, sem eru kannski ekki svo tæknileg þegar öllu er á botninn hvolft heldur enda í rauninni á að vera efnisleg. Þar á ég við skiptingu í fjölda umdæma, hvernig þau skiptast, hverjum er falið að stýra þeim og hvernig það er gert og hvaðan. Ég er sjálf búin að fara í gegnum mikla vinnu í þessu sambandi og geri þess vegna ráð fyrir að þingmenn þurfi að gera það líka vegna þess að maður þarf aðeins að hugsa málin upp á nýtt og velta fyrir sér öllum þeim kostum og göllum sem slíku fyrirkomulagi fylgja. Það þarf líka að vera vel vakandi fyrir því að ráðherranum séu ekki falin óheyrileg völd í þessu sambandi. Þannig er gert ráð fyrir umsagnaferli áður en reglugerð er sett um umdæmi o.s.frv., en þetta tel ég mjög brýnt og eðlilegt að þingið ræði.

Hvað varðar síðan fjárlögin og skertar fjárheimildir er alveg á hreinu að þetta frumvarp á sér þau faglegu rök að skynsamlegt sé að ráðast í þessar breytingar burt séð frá þeim fjárhagslega sparnaði sem af því mundi hljótast. Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á að þingið geri sér grein fyrir að þegar skorið er niður í opinberum stofnunum þá verði maður að gera sér grein fyrir því á hverju það bitnar. Núna sýnist okkur það bitna mest á lausráðnum lögreglumönnum sem missa vinnuna, að akstri lögreglubifreiða verði hætt o.s.frv., þess vegna ráðumst við núna á yfirbygginguna, en reynum þó að gera það með þeim hætti að það verði farsælt fyrir alla aðila og að sameiningin ein og sér valdi því ekki að menn missi vinnuna.