138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[13:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri engar athugasemdir við það mat ráðherrans að þetta sé það skref sem farsælt sé að stíga núna með hliðsjón af sjónarmiðum um breytingastjórn og nauðsyn þess að ná samstöðu um breytingar og allt annað þess háttar. Ég árétta þá afstöðu mína, bæði um lögregluumdæmin og eins og þær breytingar endurspegluðu sem við gerðum á skattumdæmunum fyrr í vetur, eins og við eigum að gera í kjördæmaskiptingu landsins og uppskiptingu landsins í svo fjölmörgum atriðum, það sjónarmið að landið Ísland á að vera eitt þjónustuumdæmi, enda búa hér ekki nema 0,3 milljónir manna. Við eigum einfaldlega að haga skipulagi okkar í því ljósi og skipuleggja með heildstæðum hætti og nota þá nútímatækni sem okkur gefst til að skipa þeirri þjónustu vel um land allt.