138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[13:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar, við deilum þá þeim áhyggjum varðandi spekúlasjónir fjármálaráðuneytisins um að þetta hafi þær afleiðingar að lögreglumönnum á götunni fækki, vegna þess að það er ekki það sem við þurfum á að halda í dag.

Mig langar að nýta þennan stutta tíma í seinna andsvari til að ræða aðeins um embætti ríkislögreglustjóra og þær fyrirætlanir sem birtast í frumvarpinu um breytingar á því embætti.

Í 2. gr. frumvarpsins kemur fram að dómsmálaráðherra, verði þetta frumvarp að lögum, verði veitt heimild til að fela einstökum lögreglustjórum umsjón tiltekinna verkefna sem eru talin upp í 2. mgr. 5. gr. laganna, þ.e. þar sem talin eru upp þau verkefni sem m.a. ríkislögreglustjóri er að sinna. Ég velti upp þeirri spurningu: Er heppilegt að dómsmálaráðherra taki þessar ákvarðanir? Væri ekki heppilegra að það væri annaðhvort við hér í þinginu sem tækjum þessar ákvarðanir vegna þess að það er óþægilegt að hafa of mikið vald í hendi dómsmálaráðherra sjálfs? Við þurfum enn og aftur að læra af reynslunni. (Forseti hringir.) Eða ríkislögreglustjóri tæki ákvarðanir um þetta í samráði við lögreglustjóra?