138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[13:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ítreka þakkir mínar til hæstv. dómsmálaráðherra fyrir vinnuna sem liggur að baki frumvarpinu og fyrir að leggja málið fram. Ég undirstrika það sem áður kom fram við umræðuna að mikilvægt er að allsherjarnefnd fari vandlega yfir málið vegna þess að það eru mjög margar grundvallarspurningar sem þarf að taka afstöðu til í þessu máli.

Í andsvörum við hæstv. ráðherra nefndi ég áðan spurninguna um það hvaða ákvarðanir eiga í rauninni að lúta ákvörðun Alþingis og hverjar eiga að vera hjá ráðherra og hverjar hjá stofnunum sem um ræðir. Þetta er umræða sem þarf að fara í gegnum. Ég minni á að það eru tvö sjónarmið í þessu, annars vegar sveigjanleikasjónarmiðið, að það sé auðveldara að gera breytingar og hnika til skipulagi eftir því sem vindar blása, en á hinn bóginn eru sumar af þeim ákvörðunum sem þarf að taka pólitískar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegast að þær ákvarðanir sem eru í eðli sínu pólitískar séu teknar af þinginu en ekki á vegum framkvæmdarvaldsins. Þetta er eitt sjónarmið.

Annað atriði. Ég þakkaði ráðherra fyrir þá vinnu sem liggur að baki frumvarpinu en það er hins vegar alveg ljóst að áður en málið hlýtur endanlega afgreiðslu er fleira sem þarf að gera. Ég vísa í því sambandi m.a. til þess sem kemur fram í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins þar sem segir að eftir eigi að finna út hagkvæmni þessara breytinga og að fjárhagsleg greining hafi ekki að fullu farið fram. Vissulega verður kannski seint komin endanleg niðurstaða í þeim efnum en ég er þó þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að allsherjarnefnd fái upplýsingar sem lúta að þessum þáttum áður en lengra er haldið.

Sama á auðvitað við um það atriði sem fjárlagaskrifstofan nefnir í sambandi við mannaflsstörf. Það er auðvitað rétt að það sé einnig undir í meðferð allsherjarnefndar. Það er rétt að menn hafi gleggri mynd af því áður en málið er afgreitt. Það eru svona þættir sem þarf vissulega að fara í gegnum í meðferð frumvarpsins.

Um þá hugsun sem birtist í frumvarpinu og er kannski meginatriðið í henni, að fækka beri lögregluumdæmum, segi ég fyrir sjálfan mig að ég get stutt þá stefnumörkun. Ég tók þátt í umræðum hér fyrir nokkrum árum, ekki svo mörgum árum, um þá fækkun umdæma sem átti sér stað árið 2007, ég studdi þá breytingu og var þeirrar skoðunar að rétt væri að ganga lengra. Þannig að í prinsippi get ég vel stutt það sjónarmið að fækka beri lögregluumdæmum með það að markmiði að efla þau og gera sjálfstæðari og sterkari fyrst og fremst.

Ég vek athygli á því að þetta sjónarmið, það meginsjónarmið um fækkun og stækkun lögregluumdæma, er auðvitað umdeilt eins og við þekkjum. Þar hygg ég að sé meiri ágreiningur eða meiri skoðanamunur, ef við getum sagt sem svo, milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis heldur en milli flokka. Ég held að það sé ekki endilega flokkspólitískt mál heldur mótist frekar af þeim bakgrunni sem þingmenn hafa í þessu sambandi. Það er umræða sem við þurfum að fara í gegnum hér í þinginu.

Ég get mjög vel fallist á þá hugmynd sem frumvarpið byggir á að því leyti að rétt sé að fækka lögregluumdæmum og stækka þau. Ég hef hins vegar ekki sannfærst um það sjónarmið sem kom fram m.a. í andsvari hv. þm. Helga Hjörvars áðan að það sé rétt að landið allt sé eitt lögregluumdæmi. Ég hef örlítið hugleitt það sjónarmið og minnist þess að hafa tekið þátt í fundum þar sem þau sjónarmið voru til umræðu á sínum tíma. Ég hef ekki sannfærst um að það sé endanlega lausnin á málinu því að þrátt fyrir fámenni þjóðarinnar þá er það nú þannig að landið er stórt og það getur verið mikilvægt að hafa sjálfstæðan stjórnanda nær vettvangi en væri hægt með því að hafa landið allt eitt umdæmi. Það eru umræður sem við hljótum að fara í gegnum í þessu sambandi.

Eins þarf að fara í gegnum umræðu um það sem aðeins örlar á í sambandi við þessa frumvarpsgerð að hvaða marki einstök lögregluembætti taka að sér miðlæg verkefni eins og það er orðað. Fyrir því eru sterk rök í mörgum tilvikum en það er ekki sama hvernig að því er staðið. Það leiðir auðvitað hugann að spurningunni um það hvort miðlæg verkefni af ýmsu tagi eigi að vera hjá einu embætti sem væri þá í líkingu við núverandi embætti ríkislögreglustjóra. Það má vel færa rök fyrir því að jafnvel fleiri verkefni sem fela í sér þjónustu eða starfsemi sem lýtur að öllu landinu gætu verið hjá embætti, einu miðlægu embætti, meðan verkefni sem eru eðli málsins samkvæmt staðbundnari séu hjá staðbundnum lögreglustjórum. Það má alveg velta þessu fyrir sér. Þetta er þáttur sem mikilvægt er að komi til umræðu í þessu starfi.

Ég held að við förum kannski ekki mjög langt í þessari umræðu í dag vegna þess að ljóst er að það á eftir að kalla eftir umsögnum frá fjöldamörgum aðilum áður en málið fær afgreiðslu í þinginu. Það er vissulega mikilvægt að heyra sjónarmið þeirra sem starfa í kerfinu, hvort sem um er að ræða yfirmenn eða almenna starfsmenn og sjónarmið þeirra og félagasamtaka skiptir auðvitað miklu máli í þessu sambandi. Það er líka rétt að þingið fái milliliðalaust að heyra sjónarmið sveitarstjórnarmanna vítt og breitt um landið um þetta mál vegna þess að lögreglustarfsemin í landinu, hvað eigum við að segja, snertir málefni sveitarstjórnanna a.m.k. með óbeinum hætti í mjög mörgum tilvikum og eðlilegt að sveitarstjórnarmenn sem kjörnir fulltrúar fólksins á sínum svæðum hafi sjónarmið um þessi efni.

Eins er nauðsynlegt að innan allsherjarnefndar fari fram frekari umræða um þau atriði sem ég vék helst að í andsvörum mínum áðan sem lúta að þeirri stefnumörkun sem snýr að fjármögnun lögreglunnar á næstu árum og hvaða fjármunum við, eða ríkið, við sem þing og fjárveitingavald, viljum verja til löggæsluverkefna á næstu árum. Það er töluvert mikilvæg umræða. Ég minni á það að þegar málefni lögreglunnar bar á góma á haustþingi komu þingmenn hér úr öllum flokkum, leyfi ég mér að segja, hver á fætur öðrum og lýstu þeim sjónarmiðum að standa yrði betur vörð um fjárveitingar til lögreglu en gert var í fjárlagafrumvarpi, en því miður náðu þau góðu áform sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum lýsti í ræðum sínum ekki fram að ganga. Það er því mikilvægt að innan allsherjarnefndar fari fram hreinskiptin umræða um það hversu miklum fjármunum við erum til í að verja til lögreglumála. Inn í það kemur mat á þörfinni sem er auðvitað lykilatriði í þessu sambandi.

Ég minni á í þessu sambandi að lögregla og starfsemi hennar er algjör grundvallarþjónusta, grundvallarstarfsemi á vegum hvers ríkis. Ef lögreglan er ekki í færum um að sinna hlutverki sínu sem skyldi þá er svo margt annað í samfélaginu sem getur farið úr skorðum. Við höfum vissulega tekið umræðu oft á liðnu þingi, liðnum missirum, um það að mikilvægt sé að standa vörð um stofnanir sem hafa hlutverki að gegna varðandi réttarvörslu, saksóknara, dómstóla og annað þess háttar en lögreglan má ekki gleymast í því sambandi. Lögreglan má alls ekki gleymast í því sambandi.

Ég vil nota þetta tækifæri til að undirstrika það að á þeim tímum sem við göngum í gegnum núna er gríðarlega mikilvægt að sá þáttur hins opinbera verði ekki fyrir skerðingu fjármuna sem geri það að verkum að hann eigi erfiðara með að sinna því hlutverki sem ekki bara lögin heldur þjóðin öll gerir ráð fyrir að sé fyrir hendi og sé í lagi.

Þetta eru nú svona þau almennu sjónarmið varðandi þetta frumvarp og þær hugsanir sem lúta að þessu sem ég vildi koma á framfæri við umræðuna. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að mikilvægt er að við förum vandlega í gegnum þetta í allsherjarnefnd. Ég vil af því tilefni nefna sérstaklega að það er ánægjulegt að frumvarpið sé — ég hefði náttúrlega kosið að frumvarpið kæmi fram fyrr en við sáum mikinn bunka frumvarpa koma hingað inn rétt fyrir lokadagsetninguna 31. mars og eigum í nokkrum vandræðum í þinginu með að greiða úr því, en þetta er hins vegar ótvírætt mál sem á að vera í forgangi að því leyti að allsherjarnefnd á að gefa sér tíma til að fara í gegnum það. Þegar við stöndum frammi fyrir því að fá frumvarpið núna og gildistakan er ákveðin eða boðuð 1. janúar á næsta ári, höfum við töluvert meira svigrúm en t.d. á liðnu hausti þegar umræður af þessu tagi fóru fram og miðuðu hugsanlega við áramótin síðustu. Ég fagna því að við höfum aðeins meira svigrúm og meira rými núna í þinginu til að fjalla um málið.

Að öðru leyti ætla ég að geyma mér frekari umræður um málið þangað til við höfum fjallað um það í allsherjarnefnd en ítreka þakkir til dómsmálaráðherra og þeirra sem unnu að undirbúningi frumvarpsins, þó að ég sé ekki endilega tilbúinn fyrir fram að skrifa undir allt sem þeir segja í þessum frumvarpstexta.