138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[14:13]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, lögum um lögmenn, nr. 77/1998, og innheimtulögum, nr. 95/2008. Miða þessar breytingar að því að bæta réttarstöðu skuldara. Frumvarpið er unnið í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti að höfðu samráði við Alþýðusamband Íslands og réttarfarsnefnd.

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Í þeim felst að skiptastjóri þrotabús geti heimilað einstaklingi sem tekinn er til gjaldþrotaskipta að búa áfram í íbúðarhúsnæði í eigu þrotabúsins í allt að 12 mánuði. Þarf skiptastjóri ekki að leita til þess samþykkis veðhafa í eigninni, en áskilið er að hann leiti eftir afstöðu þeirra. Fyrir afnotin af húsnæðinu skal þrotamaður greiða leigu sem nemi a.m.k. þeim kostnaði sem þrotabúið ber af eigninni. Einnig getur skiptastjóri áskilið að trygging verði sett fyrir spjöllum sem kunna að verða á eigninni. Með breytingunni er einnig lagt til að þrotamaður geti með sömu skilyrðum fengið að hafa umráð einstakra lausafjármuna sem eru í eigu þrotabúsins.

Með þessum breytingum er reynt að koma til móts við þrotamann sem hefur þörf fyrir að vera áfram um nokkurn tíma í því húsnæði sem hefur verið heimili hans á meðan hann leitar leiða til að koma sér fyrir annars staðar.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum um nauðungarsölu. Í 28. gr. nauðungarsölulaga er tiltekið hvað kveða skuli á um í almennum uppboðsskilmálum á eignum. Er tekið fram í 6. lið ákvæðisins að sá sem kaupir eign á nauðungarsölu beri áhættu af eigninni frá því að boð hans er samþykkt og njóti réttar til umráða yfir henni frá sama tíma. Í frumvarpinu er lögð til sú viðbót að sé hin selda fasteign íbúðarhúsnæði, sem gerðarþoli hefur til eigin nota, skuli hann njóta réttar til að halda notum á húsnæðinu í tiltekinn tíma, allt að 12 mánuðum frá samþykki boðs. Fyrir þessi not skuli hann greiða hæfilega húsaleigu að mati sýslumanns.

Tilgangurinn með þessari breytingu er sá sami og með breytingunum á gjaldþrotaskiptalögunum, þ.e. að hafi sá sem búið hefur í hinni seldu eign og haldið þar heimili þörf fyrir að vera þar áfram um nokkurn tíma, eigin hann þess kost.

Þá er einnig lögð til mikilvæg breyting á 57. gr. nauðungarsölulaga. Í þeirri grein er kveðið á um hvernig skuli farið með þær kröfur sem ekki fást greiddar við nauðungarsölu. Í frumvarpinu er lögð til sú regla að sá sem á veð í fasteign sem seld er nauðungarsölu en hefur ekki fengið fulla greiðslu af söluverðinu, geti einungis krafið gerðarþola eða ábyrgðarmann hans um mismun þess sem er á eftirstöðvum skuldarinnar og markaðsvirði hinnar seldu eignar.

Í þessu felast tvær breytingar frá fyrri reglu. Í fyrsta lagi tekur hin nýja regla til allra þeirra sem kunna að eiga veðréttindi yfir eign, en ekki aðeins þess sem kaupir eign á nauðungarsölu eins og er í dag. Í öðru lagi tekur hin nýja regla til þess að sá sem vill innheimta eftirstöðvar veðskuldar hjá gerðarþola eða ábyrgðarmanni á skuldinni, verður að sýna fram á hvert markaðsverð eignarinnar var á þeim tíma sem hún var seld. Er hér komin skýr regla um að sá veðhafi sem ekki fær kröfu sína að fullu greidda af uppboðsandvirði eignar, getur ekki krafið skuldarann eða ábyrgðarmann að skuldinni, ef hann er til staðar, um meira en sem nemur þeim mismun sem er á eftirstöðvum skuldarinnar og markaðsvirði hinnar seldu eignar á þeim tíma þegar eignin var seld nauðungarsölu.

Sem dæmi má taka að ef fasteign er seld á nauðungarsölu og sá sem á veðrétt í fasteigninni kaupir hana á eina milljón. Krafa þess sem kaupir er 20 milljónir. Ef þessi kröfuhafi telur að hann hafi ekki fengið fulla greiðslu á kröfu sinni með því að kaupa fasteignina verður hann að láta meta markaðsvirði fasteignarinnar á þeim tíma sem hún var seld nauðungarsölu. Sé markaðsvirði fasteignarinnar 19 milljónir getur kaupandi krafið skuldarann um eina milljón, þ.e. þann mismun sem er á eftirstöðvum kröfunnar og þess sem var markaðsvirði fasteignarinnar. Í stuttu máli sagt er það þannig að skuldari getur ávallt gengið út frá því að markaðsvirði eignar sé dregið frá skuld hans.

Þá er í ákvæðinu einnig lagt til að þeim sem kann að verða krafinn um eftirstöðvar skuldbindinga sé einnig heimilt að höfða mál á hendur kröfuhafa til að fá skuldir sínar færðar niður samkvæmt því sem lagt er til hér að framan.

Þá er lögð til sú breyting að þær breytingar sem lagðar eru til á nauðungarsölureglunum eigi einnig við um sölu á lausafjármunum en slíkt er háð mati í dag.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á lögum um lögmenn og innheimtulögum. Er þar lagt til að skilgreint verði hvað felist í löginnheimtu samkvæmt innheimtulögum og lögum um lögmenn. Í skilgreiningunni felst að lögmenn annist löginnheimtu og að löginnheimta sé innheimta á grundvelli réttarfarslaga og markist upphaf hennar við aðgerðir sem byggðar eru á lögum um aðför, lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., lögum um nauðungarsölu, lögum um meðferð einkamála, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um skipti á dánarbúum o.fl., eða tilkynningum sem samrýmist góðum lögmannsháttum.

Þá er lagt til að dómsmálaráðherra gefi út leiðbeiningar handa lögmönnum varðandi endurgjald frá skuldara við innheimtu skulda. Er með þessari reglu reynt að vernda skuldara gegn óhóflegum innheimtukostnaði lögmanna. Hér ber að hafa í huga, virðulegi forseti, að það er ekkert samningssamband á milli lögmanns og skuldara, það væri þá frekar milli lögmanns og kröfuhafa, þannig að skuldari hefur, samkvæmt gildandi reglum, engin tök á að hafa nein áhrif á það sem hann er krafinn um samkvæmt samkomulagi kröfuhafa og lögmanns. Hér er lögð til bót á því.

Með sömu rökum er einnig lagt til að lögmenn megi ekki áskilja sér endurgjald af þeim hluta kröfu sem ekki er komin á gjalddaga. Er með þessu lagt til að þrátt fyrir að skuld sé gjaldfelld sökum vanefnda á afborgunum og vöxtum, sé lögmanni óheimilt að áskilja sér endurgjald af þeim hluta sem þannig er gjaldfelldur.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.