138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[14:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna um frumvarp þetta þar sem það er mál sem ég tel að við getum öll verið ágætlega ánægð með að sé komið fram. Hér á haustdögum tókum við þá sameiginlegu ákvörðun í þinginu að styðja við þau frumvörp sem félagsmálaráðherra legði fram í þeim tilgangi að koma til móts við skuldavanda heimilanna. Í kjölfar þess var það krafa og beiðni frá okkur í stjórnarandstöðunni, okkur sjálfstæðismönnum, að settur yrði á fót þverpólitískur hópur til að fara yfir þau úrræði með það í huga að það mætti sníða af þeim þá agnúa sem menn vissu að mundu finnast. Lagasetningin kom til í miklu hraði og við flýttum okkur óheyrilega mikið við að koma þessum úrræðum í gegn. Sem betur fer urðum við öll sammála um að setja þennan hóp á fót sem hefur unnið núna í nokkrar vikur. Ég veit til þess að mönnum í þjóðfélaginu hefur fundist erfitt í sumum tilvikum að bíða eftir einhverjum niðurstöðum og úrræðum og hafa sagt að ef menn ætluðu að vera svona agalega þverpólitískir þá gerist ekki neitt, menn séu bara eitthvað að liggja yfir þessu og reyna að finna einhverja málamiðlun og ekkert komi til með að gerast.

Ég hef enn trú á þessari aðferðafræði og ég tel að við sem sitjum á þingi eftir þær miklu efnahagslegu hamfarir sem áttu sér stað hér á landi — frú forseti, gæti ég fengið aðeins betra hljóð? — Við verðum að tileinka okkur þau vinnubrögð að við getum brotið þann odd af oflæti okkar að við getum sest niður saman með erfið mál og komist að niðurstöðu.

Við höfum öll auðvitað ólíka sýn á pólitík og ólíka stefnu þar, en í þessu máli sem varðar skuldavanda heimilanna er gríðarlega mikilvægt að við stöndum ekki hérna allan daginn í ræðustól og rífumst um það hver átti hvaða hugmynd og hver vilji ganga lengst og hver bjóði best heldur reynum í sameiningu að finna skynsamlegar lausnir á verkefnunum. Það tel ég að við séum að nálgast að gera varðandi skuldavanda heimilanna að því leyti sem varðar úrræði fyrir þá sem eru komnir í veruleg vandræði. Við eigum hins vegar eftir að finna út með hvaða hætti við ætlum að sporna við fótum þannig að það séu ekki fleiri heimili og fleiri einstaklingar sem þurfi á þessum úrræðum að halda.

Ég hef á þessu stigi málsins ákveðnar áhyggjur af því að við komumst ekki lengra með þessa þverpólitísku vinnu en ég vonast þó til þess að okkur takist það. Í efnahags- og skattanefnd hefur verið sett af stað skoðun á því hvernig hægt sé að nálgast þá stóru spurningu hvort svigrúm sé innan bankanna til þess að fara í einhverjar almennar aðgerðir gagnvart heimilunum.

Ég fagna því að efnahags- og skattanefnd sé í þessari vinnu. Ég vona að hún haldi vel á spöðunum og vinni hratt og vel að því að leita svara við þeirri stóru spurningu vegna þess að okkur sem sitjum í þverpólitíska starfshópnum hefur ekki auðnast það að fá svör við þessum spurningum. Við höfum einfaldlega ekki fengið upplýsingar frá bönkunum og við höfum lent í vandræðum með að fá það fram.

Ég tel og byggi það jafnframt á þeirri skýrslu sem Seðlabanki Íslands lagði fram núna í vikunni um stöðu heimilanna að brýnt sé að við reynum að finna sameiginlega almenna lausn. Ég skal viðurkenna það að ég var algjörlega á annarri skoðun fyrir réttu ári síðan. Ég taldi að hægt væri að fara aðra leiðir en að fara í almennar niðurfellingar skulda. Ég taldi það. En úr því sem komið er, það er eitt og hálft ár frá hruni og miðað við upplýsingar frá Seðlabankanum erum við ekki komin með tök á þessum vanda. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við það. Við þurfum að leita leiða til þess að fækka þeim aðilum sem þurfa á þessum úrræðum að halda. Skýrsla Seðlabankans segir okkur það, staðan er alvarleg. Það eru fjölmörg heimili og allt of há prósenta heimila sem eru í vandræðum um hver mánaðamót með að ná endum saman. Við verðum, ég sem aðrir, að hafa þroska til þess að endurskoða afstöðu okkar ef staðan er orðin sú að það þurfi að koma til almennar aðgerðir. Þær eru vissulega kostnaðarsamar. Við þurfum að hugsa þau útspil vel og við þurfum að skoða það með mikilli yfirvegun að við séum að nýta vel þá fjármuni og það svigrúm sem er til staðar, við erum einfaldlega ekki búin að festa puttana á því hvað það er mikið. Ég tel að bankarnir verði einfaldlega að svara okkur því betur en þeir hafa gert hvernig þeir sjálfir vilji ýta þetta svigrúm. Þeir hafa lagt fram ýmsar hugmyndir á aðgerðum sem hafa m.a. verið auglýstar en svo virðist sem fáir uppfylli þau skilyrði sem bankarnir setja til þess að menn komist inn í þau úrræði. Þar af leiðandi eru frekar fáir sem hafa náð að nýta sér þau.

Ég vil einfaldlega nota þennan tíma minn til þess að skora á bankana að setja meiri kraft í þessa vinnu. Ég veit að þetta er hægt og það væri langbest ef bankarnir mundu einfaldlega sjá að það eru þeirra hagsmunir sem og okkar allra að taka hratt og vel á þessum vanda þannig að þeim fækki sem þurfa að nýta sér þessi greiðsluvandaúrræði. Ég vona að svo verði. Það hefur svolítið verið þannig að menn hafa bent hver á annan og sagt: Ja, ég og mitt fyrirtæki, við erum að bjóða mjög vel.

Það er spurning hvort vandinn sé ekki bara kominn til vegna annarra skulda hjá öðrum fyrirtækjum. Þess vegna hefur verið erfitt að ná einhverjum árangri en nú er bara svo komið að við getum ekki beðið lengur. Það er best að bankarnir sjái þetta sjálfir, spýti í og taki á þessum verkefnum. Það væri mun heppilegra en að við hér á þinginu þyrftum að setja einhverjar þvingaðar aðgerðir á þessa aðila. En það er algjörlega ljóst að við getum ekki staðið hér og beðið eftir því að þetta vandamál leysist af sjálfu sér. Það gerir það ekki. Nú er einfaldlega svo komið að við þurfum öll sameiginlega á yfirvegaðan hátt að finna réttu leiðina til lausnar á skuldavanda heimilanna.