138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[14:32]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gladdist þegar ég heyrði hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur flytja þessa ræðu vegna þess að nú höfum við til umræðu frumvarp sem er ætlað að leysa vanda þeirra sem eru komnir í þrot. Frumvarpið er góðra gjalda vert en það vill svo til að við gleymum aðalvandanum sem er sá að fólk kemst yfirleitt í þrot. Það er nauðsynlegt, og það er held ég að verða flestum landsmönnum ljóst, nema ef vera kynni þeirri ríkisstjórn sem nú situr, að á skuldavanda heimilanna þarf að taka með almennum aðgerðum. Þessar sértæku aðgerðir eru sambærilegar við það að leysa vandamál sem fylgja þakleka með því að reyna að setja undir lekann þar sem hann er verstur í stað þess að gera við þakið. Við þurfum á því að halda eigi síðar en nú þegar að farið verði út í almennar aðgerðir til skuldaniðurfellingar og þær gerðar að forgangsmáli á borði ríkisstjórnarinnar.

Þess vegna vil ég fagna þessari ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur og fullvissa hana um að hún talar fyrir munn margra.