138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

508. mál
[14:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma inn á örfá atriði varðandi þetta mikilvæga mál. Ljóst er að grípa þarf til mikilla hagræðingaraðgerða í ríkisrekstrinum og þá er mikilvægt að menn byrji strax og taki vel á því. Hér er um að ræða sameiningu tveggja stofnana sem eiga mjög margt sameiginlegt og ég tel að reksturinn komi til með að falla vel saman.

Fasteignaskrá Íslands er gríðarlega mikilvæg stofnun sem gegnir víðtæku hlutverki og ákveðnu forustuhlutverki varðandi fasteignaskráningu, ekki bara á landsvísu heldur í alþjóðasamhengi. Hefur verið litið mjög til Íslands varðandi starfsemi þeirrar stofnunar erlendis frá. Enn og aftur gefst okkur í þingsal tækifæri til að benda á hvað við eigum sterka og góða innviði og það er full ástæða til að gera það í þessu tilviki. Ég hlakka einfaldlega til að sjá þessa sameiningu verða að veruleika og ég er þess fullviss að starfsmenn beggja stofnana mæta þessu stóra verkefni með opnum huga og þetta kemur til með að takast vel til.

Sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki varðandi Þjóðskrá og að sama skapi eru sveitarfélögin mikilvægur hlekkur í starfsemi Fasteignaskrár ríkisins. Sá dagur hlýtur því að renna upp þar sem ein stjórn kemur til með að hafa áhrif bæði á málefni Þjóðskrár og eins Fasteignaskrár Íslands þannig að þetta renni saman í eitt, enda eru þarna miklir hagsmunir undir sem varða m.a. sveitarfélögin.

Það er rétt sem fram hefur komið í umræðunni í dag að möguleiki er á að færa fleiri verkefni til Fasteignaskrár Íslands, þ.e. til hinnar nýju stofnunar sem kemur til með að heita Þjóðskrá Íslands. Það eru m.a. verkefni sem nú eru uppi áform um að búa til nýja stofnun utan um sem á að heita Byggingarstofnun og er í meðförum þingsins. Ég tel að þau verkefni sem eru þar á ferðinni muni eiga mjög vel heima hjá þessari stofnun. Þetta eru verkefni í tengslum við bæði byggingarfulltrúana hjá sveitarfélögunum og eins við brunavarnir og Brunamálastofnun. Ég tel að á tímum sem þessum verðum við að horfa á þetta í heild og vil hvetja til þess að við öll sem tökum þátt í þessari umræðu reynum að beita okkur í því að horfa svolítið út fyrir rammann, að við horfum ekki alltaf á það að eina leiðin sé sú að búa til nýjar stofnanir heldur reynum að nota þann góða grunn sem er til staðar og sem sannarlega er til staðar í því tilviki sem við ræðum hér. Því væri mjög við hæfi að fjölga verkefnum sem fara til þessarar stofnunar, enda er það svo frábært að það eru útibú frá Fasteignaskrá ríkisins bæði á Akureyri og eins á Selfossi sem full ástæða er til að styrkja og gætu vel tekið að sér frekari verkefni. Ég tel þess vegna að það mál og sú stofnun sem við ræðum hér geti verið ákveðið flaggskip í þeim miklu breytingum sem fram undan eru í íslenskri stjórnsýslu og ég veit að það er hugur í mönnum hjá Fasteignaskrá Íslands eins og hún heitir og Þjóðskrá að fara í þetta verkefni með opnum huga.

Ég hlakka til að fylgjast með og hvet hæstv. ráðherra til að halda vel utan um þetta mál vegna þess að við vitum að þegar breytingar verða koma alltaf upp hnökrar og við þurfum að styðja fólkið þarna vel í því að þetta takist allt saman vel.