138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:18]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Þetta frumvarp er samið að mínu frumkvæði og flutt samhliða frumvörpum um greiðsluaðlögun einstaklinga og umboðsmann skuldara, sem vonandi gefst færi á að mæla fyrir hér á eftir. Í frumvarpi um greiðsluaðlögun einstaklinga, sem mælt verður fyrir síðar í dag, er lagt til að lögfesta verði sérstakar reglur um frjálsa og þvingaða greiðsluaðlögun fyrir einstaklinga. Markmið þeirrar löggjafar er að gera fólki í greiðsluvanda kleift að ná tökum á fjármálum sínum og byrja upp á nýtt. Skilyrði fyrir þeirri greiðsluaðlögun er að skuldari sé ófær um að standa í skilum eða verði það um fyrirséða framtíð. Hins vegar eru ekki allir skuldarar í þeirri stöðu og því frumvarpi sem hér er um að ræða er ætlað að tryggja afmörkuð greiðsluaðlögunarúrræði fyrir einstaklinga sem eru afmarkaðri í bæði efni og tíma en hin almenna greiðsluaðlögun kveður á um.

Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að þau lög sem samþykkt voru fyrir réttu ári um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði haldi gildi sínu og það úrræði verði frekar styrkt, þ.e. möguleikinn til tímabundinnar lækkunar á afborgun veðkrafna. Jafnframt verði fléttað inn í þau lög tímabundnu úrræði fyrir einstaklinga sem setið hafa uppi með tvær fasteignir frá því í október 2008 vegna kaupa á fasteign til að halda heimili án þess að unnt hafi verið að selja eldri fasteign. Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði um breytingu á ráðstöfun afborgana af kröfum á þann veg að forgangsröðun innborgana á körfur í vanskilum breytist.

Virðulegi forseti. Eftir hrun banka- og fjármálakerfisins haustið 2008 eiga margir í miklum greiðsluvanda þótt vandinn verði ekki í öllum tilvikum rakinn til hruns fjármálakerfisins. Fjöldi einstaklinga stendur ekki lengur undir greiðslubyrði lána, sem hefur þyngst mjög undanfarin missiri, enda skuldbindingar í mörgum tilvikum vaxið langt umfram virði eigna sem standa þeim til tryggingar. Með frumvarpinu er ætlunin að ná því markmiði að færa raunvirði fjárskuldbindinga að veruleikanum og hraða endurreisn samfélagsins eins og kostur er með fljótvirkri endurskipulagningu fjárhags einstaklinga.

Ég mun nú gera grein fyrir ákvæðum laganna nokkurn veginn í þeirri röð sem þau koma fyrir í frumvarpinu.

Gert er ráð fyrir því að skuldari geti óskað eftir því að greiðsluaðlögun vegna fasteignaveðkrafna taki einnig til skulda sem hann stofnaði til vegna kaupa á fasteign til að halda heimili og sem sannanlega runnu til greiðslu kaupverðs eignarinnar eða nauðsynlegra endurbóta á henni í tengslum við kaupin, en sem tryggðar eru með veði í fasteign þriðja aðila. Slík veðréttindi og kröfur eru almennt nefnd lánsveð og þinglýstir eigendur þeirrar fasteignar sem lánsveð hvílir á kallaðir lánsveðsalar. Með þessu er gert ráð fyrir að unnt verði að ná betur utan um erfið greiðsluvandamál fólks jafnvel þó að allar skuldir sem aflað var til að kaupa eða byggja viðkomandi húsnæði séu ekki þinglýstar á það húsnæði sjálft. Það er meginreglan að skuldari hafi fengið lánsveð til að standa straum af kaupum á heimili til að úrræðið eigi við og það er jafnframt skilgreint í frumvarpinu hvar telja beri lánsveð í veðröð þar sem fjallað er um stöðu skulda eftir veðröð í viðkomandi fasteign. Það eru nokkuð mörg dæmi um það að veruleg vandamál hafi komið upp vegna þess að þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi ná ekki utan um heildarskuldbindingar skuldara þar sem hluti skuldbindinganna er tryggður með lánsveði í öðrum eignum.

Jafnframt er gert ráð fyrir að heiti þessara laga verði breytt í ljósi þeirra breyttu efnisákvæða sem hér er um að ræða og það verði á þann veg að um verði að ræða lög um tímabundin greiðsluvandaúrræði fyrir einstaklinga. Jafnframt mun yfirstjórn þeirra mála sem þegar er að finna í núverandi frumvarpi flytjast yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu í samræmi við þá ákvörðun okkar að flytja þau mál er lúta að meðferð skuldamála einstaklinga yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Í frumvarpinu er jafnframt breytt efnisákvæðum um hvaða sjónarmið umsjónarmaður með greiðsluaðlögun á að hafa að leiðarljósi þegar reiknaðar eru út þær afborganir sem skuldari á að greiða af fasteignaveðkröfum á ákveðnu tímabili. Eins og lögin eru úr garði gerð í dag er gert ráð fyrir að skuldari geti greitt í samræmi við getu í allt að fimm ár en viðmiðið er að miðað skuli við það sem teljist hæfileg húsaleiga fyrir eignina sjálfa. Í dag er viðmiðið sem sagt það að um sé að ræða hæfilega húsaleigu á almennum markaði fyrir þá eign sem um ræðir en með þeirri breytingu sem gert er ráð fyrir hér er miðað við greiðslugetu skuldara.

Með þessari breytingu er þess vænst að þetta úrræði nýtist fleirum. Flest rök hníga til þess að rýmka þetta skilyrði til að auðvelda fólki að halda húsnæði sínu á þeim óvissutímum sem fram undan eru. Það er hagur jafnt skuldara og kröfuhafa að áfram sé greitt af áhvílandi veðlánum í samræmi við getu lántakans frekar en að kröfuhafar þurfi að leysa til sín óþarflega margar eignir. Það er heldur ekki þannig að fyrir fólk sem hefur orðið fyrir umtalsverðu tekjufalli sé um auðugan garð að gresja með aðra kosti jafnvel þó að fólk hafi ekki reist sér hurðarás um öxl í skuldbindingum. Þá er í reynd í grunninn um að ræða tvær aðferðir til að ná fram eðlilegu samhengi á milli greiðslugetu fólks og verðmætis eignanna sem fólkið býr í, það er að efna til stórfelldrar nauðungarsöluhringekju þar sem tugþúsundir fjölskyldna þyrftu að missa heimili sín og flytjast þá í annað húsnæði og þannig væri hægt að þvinga fram ákveðna verðlækkun á markaðnum — eða með þessari aðferð að fólk borgi einfaldlega í samræmi við getu sína í allt að fimm ár og veðsetning eignarinnar verði í lok þess tíma löguð að markaðsverði eigna.

Í frumvarpinu er jafnframt að finna nýjan ítarlegan kafla um meðferð ákvarðana þegar um er að ræða að skuldari greiðir fasteignaveðkröfur af tveimur fasteignum eins og rakið var hér í upphafi. Það eru býsna mörg heimili í þeirri stöðu að vera með tvær eignir þar sem fólk hafði tryggt sér nýja eign fyrir hrun en hafði ekki gefist færi á að selja þá eign sem það ætlaði að fara úr, og það þarf að höggva á þann hnút. Sú leið sem hér er lagt upp með, og það eru ítarlegar og langar lýsingar í frumvarpinu á því hvernig það gerist nákvæmlega, er í reynd sú að veðhafar taki yfir aðra eignina og skuldsetning vegna hennar falli niður en þó þannig að hin eftirstandandi eign verði veðsett upp að 80–110% af verðmæti þeirrar eignar í samræmi við greiðslugetu skuldara. Þetta er eina færa leiðin þegar fólk situr uppi með tvær eignir og ég tel að skilningur sé á því meðal kröfuhafa að þetta sé einfaldasta og skilvirkasta leiðin.

Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á fyrirkomulagi ráðstöfunar afborgana inn á lánasamninga. Samkvæmt dómvenju á Íslandi er innborgunum á peningakröfu ráðstafað fyrst til að greiða áfallinn kostnað og vexti og þegar kostnaður og vextir hafa verið greiddir að fullu þá fyrst er innborgun ráðstafað til að greiða niður höfuðstól kröfunnar. Það er lagt til að gerð verði breyting á þessu en til að byrja með taki hún bara til ákveðinna krafna fjármálafyrirtækja. Þannig er lagt til að frá 1. júlí 2010 skuli fjármálafyrirtæki ráðstafa innborgun einstaklinga vegna samningsbundinna afborgana lánasamninga við fjármálafyrirtækið þannig að innborgun skuli fyrst ráðstafað til lækkunar höfuðstóls, síðan til greiðslu áfallins kostnaðar og að lokum til greiðslu áfallinna vaxta.

Margir hafa orðið til að gagnrýna þessa gildandi dómvenju um ráðstöfun á innborgun peningakröfu. Sem dæmi um áhrif þeirrar breytingar sem hér er lögð til má nefna vanefnd á mánaðarlegum afborgunum lánasamnings sem staðið hefur í þrjá mánuði. Er þá áfallinn kostnaður og dráttarvextir vegna þeirra vanefnda. Ef skuldari getur greitt inn á þessa skuld, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur áföllnum kostnaði og dráttarvöxtum, stendur höfuðstóll óbreyttur að lokinni innborgun og áfallandi dráttarvextir reiknast af honum þrátt fyrir að skuldari sýni fram á vilja til greiðslu auk þess sem höfuðstóll kann að hafa áhrif á verðtryggingarþátt láns eftir atvikum. Þessu verður þá breytt á þann veg að fyrst er ráðstafað til greiðslu höfuðstóls, engu af greiðslunni er þá ráðstafað til greiðslu kostnaðar eða dráttarvaxta þar sem hún nægir ekki til að greiða niður allan höfuðstólinn. Frá þessum innborgunardegi lækkar þá höfuðstóll og myndar nýjan stofn til útreiknings dráttarvaxta. Ógreiddir en áfallnir dráttarvextir halda gildi sínu en eru ekki vaxtareiknaðir sérstaklega. Þetta úrræði nýtist sérstaklega vel þeim sem eiga við tímabundna greiðsluerfiðleika að etja og mun skipta mjög miklu máli til þess að koma í veg fyrir að lágtekjufólk verði fyrir verulegum skakkaföllum af tímabundnum greiðsluerfiðleikum eins og raunin hefur verið áratugum saman hér á landi.

Þá er að finna í frumvarpinu ákvæði um heimild skuldara, sem er í vanskilum samkvæmt lánasamningi við fjármálafyrirtæki, til að gera kröfuhafa tilboð um tímabundinn samning aðila sem miði að því að lánasamningur verði í skilum í lok samningstímans. Slíkur samningur kann að fela í sér eftirgjöf krafna. Hér er boðið upp á úrræði sem kann að nýtast þeim sem ekki eiga í miklum vandræðum og geta með þessum aðgerðum komist hjá viðameiri greiðsluvandaúrræðum á borð við greiðsluaðlögun. Fjármálafyrirtæki væri þá í sjálfsvald sett í því tilviki hvort það tæki slíku tilboði skuldara en það þurfi að rökstyðja synjun slíks tilboðs.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu eru, eins og ég hef hér rakið, tekin saman ýmis úrræði sem ætlað er að mæta ýmsum afmörkuðum þáttum og skýrt greinanlegum hjá fólki í greiðsluvanda og er í sjálfu sér hugsað til fyllingar öðrum þeir úrræðum sem við höfum verið að vinna að og þá sérstaklega hinni almennu greiðsluaðlögun.

Ég legg síðan til að að lokinni þessar umræðu verði frumvarpinu vísað til félags- og tryggingamálanefndar.