138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra þar sem verið er að laga lögin sem Alþingi setti í lok október á síðasta ári til að taka á skuldavanda heimilanna. Í þessum lögum var ekki tekið á ýmsum hópum, þar á meðal þeim sem hafa fjárfest eða endurnýjað húsnæði með lánsveði og þeim sem stóðu uppi eftir hrun með tvær fasteignir þar sem þeim tókst ekki að selja aðra fasteignina fyrir hrun.

Þegar nýja frumvarpið er skoðað kemur í ljós að a.m.k. tveir hópar til viðbótar standa út af. Það eru annars vegar þeir sem eru með yfirveðsettar eignir og geta ekki greitt af lánum sínum en þurfa jafnframt að flytja af einhverjum ástæðum. Þessu fólki er ekki með nýja frumvarpinu gert kleift að losna við eignina eða komast út úr skuldafangelsinu. Síðan er hópur einyrkja með sjálfskuldarábyrgð eins og t.d. bændur. Þeirra skuldir eru að stórum hluta vegna atvinnureksturs og geta þeir þar af leiðandi ekki farið í þessa greiðsluaðlögun.

Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvort einhver ný úrræði séu á leiðinni fyrir þessa tvo hópa, þ.e. þá sem þurfa greiðsluaðlögun en jafnframt að (Forseti hringir.) flytja, m.a. vegna atvinnu á öðrum stað, og úrræði fyrir bændur.