138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:33]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri hópinn, þá sem eiga yfirveðsettar eignir og þurfa að flytja, er hin sértæka skuldaaðlögun væntanlega allra besta leiðin eða greiðsluaðlögun þar sem hægt er að koma skuldsetningunni í það horf að fólk ráði við hana og hún sé í samræmi við veðsetningu eigna sem að baki standa. Við opnum beinlínis fyrir það í hinni almennu greiðsluaðlögun sem mælt verður fyrir hér á eftir að einyrkjar geti fengið greiðsluaðlögun. Þó er miðað við að skuldir séu ekki fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar. Hugsunin er sú að jafnvel þó að um einyrkja sé að ræða, eins og t.d. bændur sérstaklega sem hafa fjárfest í miklum mjólkurkvóta, henta greiðsluaðlögunarúrræði ekki sérstaklega vel mikilli skuldsetningu enda umtalsverð rekstrarsjónarmið sem að baki liggja.

Hitt er aftur annað mál að fjöldi fólks getur í reynd ekki unnið fyrir sér nema sem einyrkjar og þess vegna var upphaflega greiðsluaðlögunin allt of lokuð hvað þá varðar. Margir komust ekki í greiðsluaðlögun vegna þess að þeir höfðu kannski unnið fyrir sér sem þýðendur, hárgreiðslumeistarar eða guð má vita hvað og gátu í sjálfu sér ekki fengið vinnu á öðrum forsendum en þeim að halda áfram rekstri eða starfsemi sem einyrkjar. Þess vegna erum við nú að greiða leiðina fyrir þá.

Ég held líka að það sé mikilvægt í meðförum nefndarinnar að fara aðra yfirferð og gera eins og hv. þingmaður nefnir til að finna hópa sem út af standa. Ég er sérstaklega að hugsa um þann afmarkaða hóp sem er með framkvæmdalán, sem eru stutt lán, en hefur ekki náð að umbreyta þeim í langtímaíbúðalán og getur þess vegna ekki nýtt sér greiðslujöfnunina, hið almenna úrræði sem nýtist mjög vel þeim sem voru með almenn íbúðalán. Það er því umhugsunarefni hvort við getum náð að flétta í meðförum nefndarinnar (Forseti hringir.) úrræði fyrir þann hóp, t.d. inn í þetta frumvarp.