138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:40]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að endalaust sé hægt að velta vöngum yfir einhverjum meintum afskriftum milli gömlu og nýju bankanna. Ég held að við verðum hins vegar að horfast í augu við að tveir af þessum þremur bönkum eru í eigu sömu aðila og áttu gömlu bankana þannig að það er engin afskrift búin að eiga sér stað. Kröfuhafar ætla sér að fá allan peninginn út úr þessu. Þess vegna held ég að það sé einfalt fyrir alþingismenn að mynda sér skoðun á þessu máli eins og ég legg það upp hér, út frá hagsmunum skuldara.

Mér kemur ekki við hvað bankar eða eignaleigufyrirtæki þurfa að afskrifa. Hvort þau fullnýta það svigrúm sem þau gerðu ráð fyrir að nýta við yfirfærslu á milli gömlu og nýju bankanna — ég vil að þau nýti það. Ég vil þess vegna að þau nýti enn meira ef á þarf að halda. Málið snýst ekki um hagsmuni banka, málið snýst um hagsmuni fólks.

Það sem við erum að reyna að búa til er kerfi og farvegur fyrir skuldir sem eru ósjálfbærar, þ.e. meiri en svo að fólk fái risið undir þeim, til að þær verði afskrifaðar hratt og örugglega. Í því er ekkert hámark. Það er ekki þannig að baunateljarar í einhverjum bönkum, sem ákváðu hvernig efnahagsreikningur einhverra nýrra banka ætti að líta út, eigi fullnaðarval um hvaða peningar séu lagðir til hliðar til afskrifta fyrir almenning í landinu. Ef almenningur stendur ekki undir skuldsetningunni þurfa bankarnir að afskrifa meira. Ef bankarnir þola það ekki eiga þeir að fara á hausinn.

Það er alveg sama með eignaleigufyrirtækin sem geta ekki komið til móts við fólk. Það á ekki alltaf að horfa á málið út frá hagsmunum bankanna eins og hv. þingmaður gerir. Það á að horfa á það út frá hagsmunum fólks. Við eigum að þvinga bankana og eignaleigufyrirtækin til að afskrifa allt sem ekki er raunsætt að innheimtist vegna þess að þannig verjum við hagsmuni almennings í landinu allra best. Þeim mun meira sem fært er niður þeim mun betra.

Það sem við erum að búa til er fjölþætt löggjöf þar sem fólk við ólíkar aðstæður hefur mörg tækifæri til þess að losna undan skuldabyrði sem það ræður ekki við. Það þarf ekki að vera bónbjargafólk til þess að njóta þessara réttinda. Það erum við að gera. Við erum að búa til fjölþætt réttindi fyrir fólk í afmörkuðum vanda.