138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikið talað en lítið sagt. Ég frábið mér ávirðingar hæstv. ráðherra um að ég sé að hugsa um hagsmuni bankanna. Ég var einfaldlega að segja að mér fyndist mjög óeðlilegt að bankarnir skyldu ekki færa afskriftirnar til heimilanna í landinu, það er akkúrat það sem ég var að tala um.

Þess vegna vil ég ítreka spurningar mínar, þessar tvær sem hæstv. ráðherra svaraði ekki: Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því ef skuldin er yfirfærð með ákveðnum afskriftum á milli gömlu og nýju bankanna — það er nú einu sinni þannig að einn banki er í eigu ríkisins svo því sé haldið til haga — að í raun og veru sé hægt að rukka vexti af heildarskuldinni en ekki af því sem fært er yfir?

Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra hver hann haldi að sé ástæðan fyrir þessum hagnaði bankanna tveggja, Landsbankans sem er ríkisbanki og Íslandsbanka sem er í eigu kröfuhafa sem enginn veit svo sem hverjir eru. Gæti það hugsanlega verið vegna þess að bankarnir færa ekki afskriftirnar til heimilanna? Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því?