138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Við getum tekið á ýmsum álitaefnum sem við sem sitjum í þverpólitískri nefnd höfum bent á og unnið að til að koma fram breytingum og lagfæringum á þessum greiðsluvandaúrræðum.

Ég er kannski á sömu línu og aðrir sem hafa verið hér í andsvörum í dag við hæstv. ráðherra. Það eru teikn á lofti um að ekki gangi nógu vel að taka á skuldavanda heimilanna. Ég vona að allir séu sammála um að það gangi of hægt. Síðast kom skýrsla frá Seðlabankanum sem segir okkur að betur má ef duga skal. Sú umræða sem spannst eftir að ríkisstjórnin kynnti aðgerðapakkann sinn, um að nú væri búið að svara öllum þeim vanda sem ríkisstjórninni væri kunnugt um varðandi skuldavanda heimilanna, tel ég að hafi sýnt að ríkisstjórnin tók aðeins of stórt upp í sig. Ég held að allir séu sammála um að það eigi eftir að svara þeim fjölda fólks sem stendur brátt frammi fyrir því að ráða ekki við skuldbindingar sínar. Við sem hér stöndum þurfum að hafa einhverja skoðun á því, ekki bara á því hvernig við ætlum að taka á þeim sem eru komnir í greiðsluerfiðleika heldur líka hvernig við ætlum að hindra að fleiri þurfi á þessum úrræðum að halda. Hvernig ætlum við að gera það?

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að best væri ef bankarnir byðu einfaldlega hratt og vel upp á þannig úrræði. Nú er hins vegar eitt og hálft ár frá hruni. Ég tel algjörlega útséð um að það gerist. Það hefur því miður ekki gengið nógu hratt. Þá er spurning mín til hæstv. ráðherra: Er hann sammála þessu mati mínu? Ef svo er, hvað er það sem við hérna inni getum gert til þess að tryggja að bankarnir bjóði úrræði sem nýtist og einhverjir uppfylli skilyrðin til að fá þau?