138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:51]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Hæstv. forseti. Um leið og ég lýsi fúslega yfir stuðningi við það frumvarp sem hérna liggur frammi, sem er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til rústabjörgunar eftir það efnahagshrun sem hér hefur orðið, vil ég árétta að í því fáti sem virðist hafa komið á ríkisstjórnina við þetta hrun — þótt hún hafi sýnt einlægan vilja til að bjarga þeim sem eru í andarslitrunum og hafa orðið verst úti — hefur henni gjörsamlega yfirsést það sem skiptir öllu máli í sambandi við þær efnahagslegu skelfingar sem þjóðin hefur upplifað.

Hinar sértæku aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru nákvæmlega eins og rústabjörgun af því tagi að á rústasvæðið mæti björgunarsveit og sorteri út og reyni að finna þá sem eru í andarslitrunum og bjargi þeim, lifandi eða dauðum, en skilji alla sem lifandi eru og lífsvon eiga eftir inni í rústunum.

Efnahagshrunið lýsti sér í því að hver einasti banki í landinu fór á hausinn. Svo gott sem hver einasti Íslendingur er fórnarlamb þessa hruns. Um ábyrgðina á þessu hruni skal ég ekki ræða hér, við höfum rætt hana áður og þeirri umræðu er alls ekki lokið. En öllum hugsandi mönnum má ljóst vera að hér hefur orðið mikið tjón. Réttlætið felst í því að þessu tjóni verði skipt, að ekki einungis lántakendur verði látnir bera það heldur einnig lánveitendur. Þessu tjóni verður að skipta milli þessara aðila, annars verður aldrei friður í landinu. Í landi þar sem ekki er réttlæti verður ekki friður.

Ég tel virðingarverðar þær sértæku aðgerðir sem gripið hefur verið til og þær bera vott um góðan vilja. Fyrir það er ég þakklátur. En ég kalla eftir því að fyrr en síðar vakni ríkisstjórnin til skilnings á því hversu algjört það hrun er sem hér hefur orðið og að auk þeirra sértæku aðgerða sem upphugsuð hafa verið verði gripið til almennra aðgerða til að reyna að ná þjóðinni allri út úr þeim efnahagsrústum sem við erum nú lokuð inni í.