138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

560. mál
[16:32]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Nei, virðulegi forseti, það gerði ég svo sannarlega ekki. Hitt er hins vegar staðreynd sem ekki verður umflúin að gengishrunið varð og kostnaðurinn af því er til niðurjöfnunar í íslensku samfélagi. Við getum ekki fært hann niður eða látið hann hverfa, ekki frekar en við getum fært niður fjárlagahallann og látið hann hverfa. Við erum að takast á við afleiðingar þess að hér varð skuldsetning sem var miklu meiri en við réðum við vegna þess að með efnahagsmistökum og vitlausri hagstjórn var dælt inn erlendu lánsfé og við héldum öll að við hefðum meiri kaupmátt en við raunverulega höfðum. Sparifé allra er að eyðast, jafnt þeirra sem fjárfestu í húsnæði og áttu sparifé sitt þar og þeirra sem eru aldraðir og þurfa núna að ganga á sparifé sitt til að láta enda ná saman. Þetta er afleiðing af efnahagshruni og við getum ekki blekkt okkur með því að halda að við getum eytt henni. Það sem við getum hins vegar gert er nákvæmlega það sem hv. þingmaður segir, að skipta kostnaðinum, koma hluta af kostnaðinum yfir á lánveitendurna. Það er það sem við erum að gera af fullum krafti.

Sú almenna grunnaðgerð sem við komum á í haust tryggir að lánveitendurnir bera kostnað af því að fólk borgi núna eins og það borgaði fyrir hrun, þeir bera áhættuna af því. Það var ekki tekið út með sitjandi sældinni að fá þá til að samþykkja það í haust, ekki frekar en að þær hafi verið mjög einfaldar, þær samningaviðræður sem við höfum staðið í upp á síðkastið við eignaleigufyrirtækin til að láta þau axla ábyrgð á eigin lánveitingum. En þetta er grundvallarleiðarhnoða okkar, við ætlum ekki að ríkisvæða þetta tjón, við ætlum að koma tjóninu eins og mögulegt er yfir á lánveitendurna. Það er viðvarandi verkefni. Allar þessar löggjafarbreytingar núna auka tapáhættu banka gríðarlega. Þannig ætlum við að gæta þess að þeir beri tapið (Forseti hringir.) en ekki þjóðin.