138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[16:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með þessum aðgerðum öllum, þ.e. þeim lagafrumvörpum sem hér líta dagsins ljós, er ætlunin að sníða agnúana af þeirri löggjöf sem fyrir er. Varðandi umboðsmann skuldara er þeirri stofnun ætlað að ná svolítið utan um framkvæmdina gagnvart þeim aðilum sem þurfa að fara í þessi greiðsluvandaúrræði. Það er vel, það er gott að verið sé að því. En það væri hægt að gera það eftir öðrum leiðum. Þeir lögmenn sem hafa unnið sem aðstoðarmenn skuldara hafa kannski ekki fengið leiðbeiningar og þeir vinna ekki allir á sama hátt og það hefur varpað efasemdum á þetta ferli allt saman þar sem fólk fær mjög mismunandi fyrirgreiðslu og misvísandi afgreiðslu í gegnum þetta kerfi.

Það eru til fleiri leiðir en þessi til að taka á þeim vanda og ég vonast til þess og hlakka sömuleiðis til vinnunnar sem fram undan er í félagsmálanefnd. Ég lofa samt ekki að við verðum jafnsnögg og í haust. Við þurfum að sjálfsögðu að vanda okkur.