138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[16:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur nú mælt hér fyrir þremur veigamiklum frumvörpum sem ætlað er að koma til móts við og leysa vanda fjölmargra heimila. Hér hafa orðið tiltölulega takmarkaðar umræður í dag þrátt fyrir að þetta séu mjög umfangsmikil frumvörp.

Hv. félags- og tryggingamálanefnd mun nú taka þessi frumvörp til umfjöllunar. Ég held að það séu almenn jákvæð viðbrögð við þessum frumvörpum en ég vil taka undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur sem sagði að það mundi taka sinn tíma að fara í gegnum þetta. En í ljósi þess að þetta eru aðgerðir sem skipta miklu máli fyrir fjölda heimila munum við að sjálfsögðu reyna að flýta vinnunni eins og við getum án þess að slá af þeim kröfum um vönduð vinnubrögð sem við verðum að hefja til vegs og virðingar hér á Alþingi.