138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

eldsumbrotin á Suðurlandi, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[13:55]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðgerðir hafa hingað til gengið mjög vel miðað við þessar erfiðu aðstæður. Gríðarlega margir eiga þó um sárt að binda og hugur okkar allra er án efa með íbúum á staðnum sem ganga í gegnum gríðarlega erfiðleika enda horfa þau mörg á eftir búfénaði sínum, eignum, auk þess sem daglegt líf fer úr skorðum. Við vitum öll að til lengri tíma getur slíkt haft gríðarlega erfið áhrif á alla einstaklinga. Þess vegna skiptir máli að aðgerðirnar séu vel kynntar og menn viti vel hvað stjórnvöld eru að gera. Það skiptir miklu máli að þessi skýru skilaboð séu komin fram eins og dregið hefur verið fram hér, að Bjargráðasjóði verði tryggt fé svo hann geti staðið undir ábyrgðum sínum. Þær aðgerðir sem dómsmálaráðherra kynnti áðan um aðgerðir skipta líka miklu máli og sömuleiðis þjónusta við íbúana. Það er algjört lykilatriði.

Áhrifin, eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á áðan, eru samt gríðarlega víðtæk. Í mínu ráðuneyti er okkur auðvitað hugleikin ferðaþjónustan á þessum tímum vegna þess að nú gengur í garð á Íslandi eitthvert stærsta ferðamannasumar í sögunni. Mjög mörg störf eru undir í ferðaþjónustunni auk auðvitað þeirra þungu efnahagslegu áhrifa sem þetta gos getur haft. Þess vegna skiptir máli að það sé gengið örugglega til verka í þeim efnum. Iðnaðarráðuneytið stóð fyrir því á föstudaginn að settur yrði á laggirnar viðbragðshópur ferðaþjónustunnar sem hefur unnið ötullega alla helgina. Við hittumst núna mjög þétt. Í þessum viðbragðshópi eiga sæti fulltrúar Almannavarna, Ferðamálaráðs, Ferðamálastofu, Höfuðborgarstofu, Icelandair, Iceland Express, Samtaka ferðaþjónustunnar, Útflutningsráðs auk fulltrúa iðnaðarráðuneytis, utanríkisráðuneytis og samgönguráðuneytis.

Þessir aðilar fara núna daglega í fyrsta lagi yfir upplýsingar um fjölda og aðbúnað þeirra erlendu ferðamanna sem hér eru fastir, það eru bráðaaðgerðirnar sem unnið er í. Sömuleiðis höfum við þurft að vinna í upplýsingamálunum vegna þess að það skiptir máli að annars vegar komi fram réttar og yfirvegaðar upplýsingar um gosið sjálft og áhrif þess og sömuleiðis upplýsingar um þá innviði sem hér eru og hafa sýnt sig sterka. Þessi hópur er að fara yfir almenna umfjöllun um eldgosið í fjölmiðlum. Sömuleiðis er um að ræða samstarf við móttöku og miðlun upplýsinga til erlendra blaðamanna sem staddir eru hér á landi og erlendis ásamt fjölmiðlavöktun og upplýsingagjöf til sendiráða sem er auðvitað á höndum utanríkisráðuneytisins.

Þá er líka mikilvægt að við komum því til skila að þrátt fyrir það stóra gos sem við horfumst í augu við núna eru innviðir landsins traustir og daglegt líf á Íslandi gengur að mestu sinn vanagang. Það er öruggt fyrir ferðamenn að vera á Íslandi.

Ég hef líka falið þessum viðbragðshópi ferðaþjónustunnar að vinna að aðgerða- og viðbragðsáætlun fyrir ferðaþjónustuna til næstu mánaða. Þá skiptir máli að dregnar séu upp nokkrar ólíkar sviðsmyndir af þeirri aðstöðu sem greinin mun e.t.v. standa frammi fyrir á næstu vikum og mánuðum þannig að við förum yfir það hvað gerist ef samgöngur eru ekki eins og við þekkjum þær, þ.e. ef hringvegurinn er ekki opinn í allt sumar, hvernig við bregðumst við því, hvernig við bregðumst við röskun á flugsamgöngum o.s.frv. Í þessu eru sérfræðingar að vinna akkúrat núna á meðan við stöndum hér. Þetta skiptir máli til að sem minnst röskun verði hjá ferðaþjónustunni hér á landi í sumar.

Í fjórða lagi horfir þessi hópur til lengri tíma vegna þess að það skiptir líka öllu máli að það gos og þær hamfarir sem við horfumst nú í augu við valdi ekki ferðaþjónustunni skaða til lengri tíma vegna þess að rangar upplýsingar hafi komist á kreik. Þess vegna skiptir máli að við horfum á kynningarmálin í stóru samhengi og líka til lengri tíma og að því vinnur þessi hópur samhliða þessu.

Þarna horfum við til þess að vinna til skemmri tíma og við horfum til lengri tíma, við horfum til kynningarmálanna og (Forseti hringir.) innviðanna. Ég held að með svona samstilltu átaki eigum við eftir að ná árangri og að ferðaþjónustan eigi eftir að geta blómstrað í sumar.