138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

eldsumbrotin á Suðurlandi, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[14:05]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég átti þess kost að keyra undir Eyjafjöllum í gærdag, fór í brýna heimsókn til fjarskyldra ættingja austur í Skaftártungu og fór í tvígang um svæðið undir Eyjafjöllum. Ég verð að segja eins og er og segja þingheimi frá því að aðstæður á þessu svæði eru vægast sagt ömurlegar. Ég er enn þá í hálfgerðu áfalli eftir að hafa ekið í gegnum öskufall af þeim toga sem var þarna í gær. Það er óbúandi á þessu svæði og það verður að gefa fólki sem býr þarna kost á flutningi tímabundið eitthvert annað og styðja það í því, ekki bara að kúra á dýnu á næturstað í félagsheimili eða annað því um líkt, heldur þarf að gera samstillt átak í að gefa fólki kost á að flytja heimili sitt, a.m.k. með sína kærustu muni, eitthvert annað til bráðabirgða meðan á þessu stendur. Þetta eru hrikalegar aðstæður að koma í þar sem öll raunveruleg tilvera mannsins er í svart/hvítu eða, réttara sagt, mismunandi tónum af gráu. Það eru engir litir, það eru engin hljóð, það er ekkert líf. Það bara mokast niður aska af himnum ofan og meira að segja sólin sjálf er grá eins og allt hitt.

Það þarf að koma á skilvirkara og markvissara skipulagi á svæðinu er mín reynsla af þessu. Ég ræddi þarna við lögreglumenn og björgunarsveitarmenn og þó að þeir hafi unnið mikið og óeigingjarnt starf og séu kannski að þrotum komnir er umferð t.d. ekki stýrt nægilega markvisst um svæðið. Fólki er hleypt inn á svæðið án þess að útskýrt sé nákvæmlega fyrir því inn í hvað það er að fara og frammi fyrir hverju það mun standa þegar það kemur á svæðið. Sumt af þessu fólki á brýn erindi og þarf að fara þarna um og næstu daga og vikur verður einfaldlega að hleypa umferð um svæðið. Það er ekki hægt að loka af heilu landshlutunum vegna þessa en það væri þarft verk ef því fólki sem fer þarna um yrði gerð grein fyrir því hvert það er að fara og á hverju það getur átt von við þessar aðstæður.

Það voru misjafnar aðstæður í gær. Ég fór fyrst austur fyrir í gærmorgun og þá var ég u.þ.b. 20 mínútur í gegnum versta svæðið en á bakaleiðinni hófst mjög mikill eiginlegur skafrenningur alveg frá austasta hluta Mýrdalssands og alla leið vestur á Sólheimasand þar sem skyggni var ekki nema u.þ.b. 100–200 metrar alla leiðina og það sem tók við þar var enn þá verra. Þar fór skyggnið niður í 50 metra og stundum jafnvel niður í ekki neitt þar sem menn þurftu einfaldlega að stöðva og bíða af sér mestu hryðjurnar. Það þarf að gera betur í þessu og það er ánægjulegt að heyra á fjármálaráðherra að Bjargráðasjóður fær fjármagn. Það er illa komið fyrir fólki á þessu svæði og þegar fréttir koma af því að fólk er að fara að bregða búi og ætlar að flytja í burtu, a.m.k. tímabundið hvað sem svo má segja um framhaldið, verður að vera til viðbragðsáætlun fyrir Vestur-Skaftafellssýslu og Suðurlandsundirlendið því að það þarf ekki nema breytta vindátt til að breyta hamfarasvæðinu.

Ég heimsótti þarna fullorðið fólk í gær í Skaftártungu, fólk sem var það fullorðið að foreldrar þess upplifðu síðasta Kötlugos, og þau lýstu fyrir mér á fjórðu viku vítis sem foreldrar þeirra höfðu upplifað. Sú lýsing kom alveg nákvæmlega heim og saman við það umhverfi sem ég keyrði í gegnum í gær, umhverfi sem er þannig að maður keyrir inn í það og um leið og maður er kominn inn í það á maður þá ósk heitasta að komast út úr því aftur. Það er óbúandi í svoleiðis umhverfi og hið opinbera verður í samvinnu við heimamenn og yfirvöld á staðnum að koma því þannig fyrir að fólkið sem býr við þessar aðstæður geti með sómasamlegum hætti látið fara vel um sig annars staðar á meðan.