138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

eldsumbrotin á Suðurlandi, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[14:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það kemur ekki á óvart að hana einkennir mikill samhugur. Við aðstæður sem þessar verðum við Íslendingar öll ein fjölskylda.

Þegar hefur þó nokkurt tjón orðið á mannvirkjum og umtalsverð óvissa hefur skapast um búskaparskilyrði, einkum undir Eyjafjöllum, vegna hins mikla öskufalls sem þar hefur orðið og að hluta til vegna flóða á þeim jörðum sem harðast hafa orðið úti. Það skiptir þó mestu máli að áfram takist þannig til að ekki verði um að ræða manntjón eða meiri háttar slys á fólki. Annað er hægt að bæta og annað ber að sjálfsögðu að bæta eins og kostur er. Það skiptir líka miklu máli að héðan séu send þau skilaboð til íbúa svæðisins að stjórnvöld muni standa með íbúunum og gera það sem mögulegt er til að aðstoða þá í samræmi við óskir og vilja íbúanna sjálfra. Það er að sjálfsögðu mikilvægast að hafa í huga. Aðstæðurnar eru erfiðar. Það er ekki einfalt að koma við venjubundinni rýmingu og brottflutningi frá svæðum þar sem búpeningur er á húsi og honum þarf að sinna og þar fram eftir götunum.

Það er rétt sem hér hefur verið bent á, samhæfing aðgerða skiptir miklu máli sem og upplýsingamiðlun. Málið varðar fjölmarga aðila. Hér hafa komist til tals Bjargráðasjóður, Viðlagatrygging, Landgræðslan, Vegagerðin og að sjálfsögðu fjölmargir fleiri og samhæfing verkefnanna er mikilvæg. Að því verður að sjálfsögðu unnið og að mínu mati hefur tekist afar vel til það sem af er hvað varðar viðbúnaðarundirbúninginn sjálfan og hlutur Almannavarna og tengdra aðila hefur verið til fyrirmyndar. Það besta sem við getum gert í þessum efnum er að vona að úr fari að rætast og það fari bæði í yfirfærðri merkingu og eiginlegri að sjá til sólar sem fyrst.