138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

rýmingaráætlun fyrir búfé og hreinsun ösku af túnum.

[14:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir spurninguna. Að sjálfsögðu er hugur okkar líka hjá bændum, búfénu og einnig við framtíðarstöðuna sem þetta fólk stendur frammi fyrir, bæði til skemmri og lengri tíma.

Það er alveg hárrétt að það eru ekki til rýmingaráætlanir fyrir búfé í sjálfu sér enda er í þeirri skyndiaðgerð að rýma fyrst og fremst hugsað um fólk. Engu að síður eru þær stofnanir sem hafa þetta með höndum, sveitarfélögin, Matvælastofnun, yfirdýralæknisembættið og dýralæknarnir, Búnaðarsambandið og búnaðarfélögin, með viðbúnað og þeir ferlar eru nokkuð þekktir. Ég hef kallað saman alla þessa aðila, gerði það í síðustu viku, þannig að það er búið að skipa aðgerðahóp undir forustu ráðuneytisstjóra sem allir þessir aðilar koma að, Bændasamtökin, yfirdýralæknisembættið og Samband íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við Almannavarnir, til að fara kerfisbundið yfir málið. Það hefur núna verið gert. Það er búið að athuga hvernig staðan er með búfé á þessu svæði, hvernig er með húsakynni, hvernig er með hey og annað því um líkt. Núna er þetta allt saman komið í mjög fastar og eins góðar skorður og nokkur kostur er þannig að það er í lagi.

Hins vegar þarf síðan að horfa til næstu vikna eins og hv. þingmaður minntist á, hvað við gerum þá. Ef gosið hættir núna er nokkuð einfalt að vinna úr málinu en við þurfum líka að vera búin undir að eitthvert framhald geti orðið á. (Forseti hringir.) Ég kem betur að því í seinna andsvari, frú forseti.