138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[14:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því mjög að þetta mál sé komið fram og að búið sé að vinna þetta í allsherjarnefnd. Ber að hrósa allsherjarnefnd sérstaklega fyrir það þar sem þetta er þingmannamál. Ég held sé þetta annað þingmannamálið sem kemur til 2. umr. á þessu þingi.

Mig langar að spyrja um það sem þingmaðurinn ræddi í lok ræðu sinnar, varðandi afturvirknina og þær ábendingar réttarfarsnefndar um að frumvarpið feli í sér afturvirkni. Hún bendir á að það hljóti að orka tvímælis hvort ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, um friðhelgi eignarréttarins, geti staðist. Ég mundi telja að eignarrétturinn fari í báðar áttir hér. Hérna er verið að tala um að rifta gjörningum hjá þeim sem höfðu yfir fyrirtækinu eða eignunum að ráða fyrir þrot. Er ekki spurning um hvort það sem verið var að reyna að gera með upphaflega frumvarpinu hafi einmitt verið að tryggja friðhelgi eignarréttarins fyrir þrotabúið? Hérna virðist vera eins og réttarfarsnefnd taki frekar afstöðu með þeim sem eru að ráðstafa eignum sem eiga að vera í eigu þrotabúsins.

Mig langar að taka aðeins upp umræðu sem er mjög áhugaverð og er í siðfræðihluta rannsóknarnefndarskýrslunnar. Þar er talað um svokallaða lagahyggju, sem virðist einkenna mjög íslenska lögfræðinga, þar sem lög eru túlkuð mjög þröngt. Meira og minna allir lögfræðingar hafa fengið sitt uppeldi í Háskóla Íslands, eins og hv. þingmaður ætti nú að kannast ágætlega við, og réttarfarsnefnd meira og minna líka. Hún hefur jafnvel verið í því að mennta lögfræðingana sem hafa komið út úr Háskóla Íslands. Er þetta einkenni á þeirri lagahyggju sem verið er að gagnrýna mjög í siðfræðihluta rannsóknarnefndarskýrslunnar?