138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta framsögu. Hins vegar kom eitt ekki fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra og kemur í rauninni heldur ekki fram í frumvarpstextanum eða almennum athugasemdum við frumvarpið, og það er hvernig staðið var að undirbúningi þessa lagafrumvarps. Ég velti því fyrir mér að hvaða leyti haft var samráð við þær stofnanir sem hér eiga í hlut, þau hagsmunasamtök sem að þessu máli koma með ýmsum hætti eða aðra sem málið varðar, vegna þess að ljóst er að þarna er um þó nokkra breytingu að ræða. Ég velti einnig fyrir mér að hvaða leyti málið var unnið í samráði. Ég bendi á þá staðreynd sem ætti að vera augljós að því minna samráð sem haft er uppi við undirbúning lagafrumvarpa af þessu tagi af hálfu ráðuneyta, því meira reynir á það að Alþingi sinni ákveðnu samráðshlutverki þegar málið kemur til nefndar.

Almennt vil ég segja að það er jákvætt að leita leiða til að hagræða í ríkisrekstrinum og hér er auðvitað um nokkurn sparnað að ræða þó að mat fjármálaráðuneytisins komi mér á óvart að því leyti að ég hefði haldið að ef farið væri út í viðamikla sameiningu tveggja stofnana sem báðar hafa mikil umsvif, næðist fram meiri sparnaður en hér er gert ráð fyrir. Mér finnst þetta því ekki vera mikill sparnaður sem þarna næst fram en hugsanlega hefur hæstv. ráðherra einhverjar ráðagerðir um frekari aðgerðir sem geta orðið til sparnaðar á þessu sviði, því að við hæstv. ráðherra deilum þeirri skoðun að víða þarf að taka til í ríkisrekstrinum og víða að gæta þess að nýta möguleika til hagræðingar og sparnaðar á erfiðum tímum.