138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er vissulega ágætt sem fram kom í andsvari hæstv. félagsmálaráðherra. Á hinn bóginn er svolítið annað mál að tala annars vegar um sameiningu þriggja stofnana, Tryggingastofnunar, Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins, og hins vegar um sameiningu hinna tveggja síðarnefndu, vegna þess að í allri vinnu og hugsun í sambandi við sameiningu þessara þriggja stofnana held ég að Tryggingastofnun hljóti að vera mjög í forgrunni einfaldlega vegna stærðar og umfangs þeirrar starfsemi sem þar er fyrir hendi.

Ég verð að játa það, hæstv. forseti, að ég hef ekki alveg gert upp hug minn varðandi þessa tillögu vegna þess að mér sýnist sumt mæla með því að sameina þessar tvær stofnanir sem hér um ræðir en sumt ekki. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hefur afstöðu til þess hvort stærðin sé (Forseti hringir.) endilega góð í þessu sambandi. Er rétt að stefna að því að hafa sem stærstar stofnanir til að vinna á sviði ráðuneytis hans eða er rétt að hafa (Forseti hringir.) stofnanirnar fleiri og sérhæfðari?