138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:31]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þessu sviði er ég sannfærður um að betra sé að hafa stóra stofnun. Kjarninn í hagræðingunni á milli þessara tveggja stofnana er starfsendurhæfingin, það er þar sem þær snertast. Við þurfum að horfa á snemmbæra íhlutun á vinnustöðum og fylgjast vel með þróun á vinnustöðum þegar fólki er hætt við kulnun í starfi. Við þurfum að hjálpa fólki að halda sér virku á vinnumarkaði. Við gerum það í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og mjög mikilvægt er að tengja vinnuverndarstarfið og starf Vinnumálastofnunar, sem síðan sinnir atvinnuleitendum, saman með þessum hætti.

Ég held að að öðru leyti sé það alveg rétt sem hv. þingmaður segir að ekki sé endilega víst að stærðin sé jákvæð. Það er líka hægt að hugsa sér einhvers konar regnhlífarstofnanir þar sem yfirstjórn væri sameiginleg en faglegt sjálfstæði mikið.

Varðandi þann ávinning sem gert er ráð fyrir í kostnaðarumsögninni þá eigum við von á því að hann aukist til lengri tíma litið en við fórum þá leið í þessari sameiningu að (Forseti hringir.) gefa öllum starfsmönnum fyrirheit um starf, ekki endilega sambærilegt starf, en öllum verður boðið starf og þar af leiðir að hagræðingin kemur (Forseti hringir.) fram á lengri tíma en ella.