138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:38]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stærsti fjárhagslegi ávinningurinn af sameiningunni er vegna sameiningarinnar í heild, vegna þess að við sameinum stofnunina á einn stað, í eitt húsnæði, með einu stoðkerfi, einu tölvukerfi og einni yfirstjórn. Ég held að þegar við reynum að verja grunnþjónustuna sé mikilvægt að ganga langt í þeim efnum og reyna að sameina stofnanir þar sem samlegðarkostir eru í boði.

Það er alveg rétt að í einhverjum tilvikum kann samstarf stofnana að duga en þá held ég að það sé líka umhugsunarefni að forsendur kunni að vera fyrir einhvers konar regnhlífarstofnun fyrir aðrar stofnanir á málefnasviði félags- og tryggingamálaráðuneytisins, þ.e. að það sé ein yfirstjórn og síðan margar mjög sjálfstæðar stofnanir sem hafi enga yfirbyggingu, enga fjármálastjórn og enga starfsmannastjórn með höndum, heldur bara fagstörf í þröngum skilningi. Það er módel sem ég held við þurfum að fikra okkur áfram með. Við getum ekki byggt upp margar stofnanir sem allar eru með fjármálastjóra, starfsmannastjóra, (Forseti hringir.) stóra tölvudeild o.s.frv.