138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:39]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrir þetta frumvarp um Vinnumarkaðsstofnun sem ég tel vera mikið framfaraspor og tímabært að efla atvinnumál og vinnueftirlit í einstökum héruðum.

Ég vil árétta og vekja athygli ráðherra á því sem segir í 1. gr. frumvarpsins að félags- og tryggingamálaráðherra ákveði hvar á landinu þjónustumiðstöðvar stofnunarinnar skuli vera að fenginni umsögn, að hann taki tillit til nýframkominnar sóknaráætlunar fyrir Ísland þar sem mikil áhersla er lögð á að stofna eða mynda svokölluð sóknarsvæði. Þar er talið mjög mikilvægt að til verði sterkar stofnanir í opinberri þjónustu.

Í öðru lagi segir í 4. gr. frumvarpsins að ráðherra skuli skipa svæðisbundin vinnumarkaðsráð. Þá vísa ég aftur til sóknaráætlunar á þskj. 476, sem dreift var hér í upphafi árs, að ráðherra taki tillit til skilgreindra sóknarsvæða.

Nú þegar við fáum brátt stöðu formlegs aðildarviðræðuríkis að Evrópusambandinu og í pípunum liggur að við munum fá ýmiss konar stuðning við aðlögun og eitt af stóru reynsluverkefnunum verður e.t.v. á sviði endurmenntunar og vinnumarkaðsmála, langar mig til að spyrja: Hefur ráðherrann eða ráðuneytið kynnt sér með hvaða hætti hægt er að nýta ráðgjöf Evrópusambandsríkja við undirbúning stofnunar þessarar nýju Vinnumarkaðsstofnunar? Er strax í upphafi gert ráð fyrir að undirbúa verkefni stofnunarinnar með erlendar og evrópskar fyrirmyndir að leiðarljósi?